Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:54:41 (3089)

1996-02-15 16:54:41# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það eru örfá atriði til viðbótar. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spyrti mig saman við hæstv. ráðherra með fyrirspurn um það hvað ég vildi sjá lengra gengið í þessu frv. og hvar ég vildi herða á. Ég hélt að ég hefði gert sæmilega grein fyrir því í framsögu að þau atriði væru allmörg þar sem ég vildi ganga lengra. Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara miklu frekar út í þá sálma. Ég hef nefnt varðandi hið opinbera húsnæði að ég vil sjá þar lengra gengið, m.a. að háskólastigið verði látið fylgja með öðrum skólum. Ég sé ekki ástæðu að draga mörk á milli skóla og segja: Það er ungt fólk í framhaldsskólum og sérskólum en ekki í háskólum eins og skilja mátti hæstv. ráðherra þegar hann svaraði athugasemd minni um þetta og það getur einnig gilt sem innlegg í svari til hv. þm. sem var að inna eftir mínum viðhorfum í þessu.

Ég nefndi í upphafsræðu minni tekjuöfluna til forvarnastarfa. Ég nefndi verðhækkunina á tóbaki sem hæstv. ráðherra fannst sárast að hefði ekki komist inn í þetta frv. vegna andstöðu einhvers hluta af þingflokki Sjálfstfl. eða þingflokksins alls. Ég rifja upp að þetta atriði var komið inn í tillögur meiri hluta heilbr.- og trn. á síðasta þingi í frv. sem var komið á lokastig í afgreiðslu en vegna tímaskorts var það ekki afgreitt vegna fyrirstöðu hjá einstökum þingmönnum rétt undir lokin á 118. þingi. Ég trúi ekki öðru en þetta atriði um verðhækkun umfram verðbólgu næstu árin verði tekið upp og fái stuðning meiri hluta í þinginu. Ég vil bara ekki trúa öðru en það gerist jafnframt því sem aflað verði meiri tekna til forvarna.

Virðulegur forseti. Ég gleymdi að nefna það í upphafi ræðu minnar en ég hafði óskað eftir að hv. formaður heilbr.- og trn. fylgdist með máli mínu og ef þingmaðurinn hefur ekki vikið sér úr húsi hefði ég viljað biðja um að honum væri gert viðvart.

(Forseti (ÓE): Það verða gerðar ráðstafanir til þess.)

Það voru nokkur atriði í máli hans sem ég sé ástæðu til að víkja aðeins frekar að.

Greinargerðin með frv. er óljóst orðuð að vissu leyti. Á bls. 3 í greinargerð stendur t.d.: ,,Þó að mikið hafi áunnist erum við samt enn langt frá því takmarki sem sett hefur verið, að Ísland verði reyklaust land.``

Hver hefur sett þetta takmark? Hver talar fyrir þessu? Hvaðan er þetta ættað? Ef þetta er frá ríkisstjórninni væri ég ósköp ánægður en þá ætti líka að standa öðruvísi að framlagningu málsins en gert hefur verið. Í nafni hvers er talað? Heilbrigðisáætlunin, sem samþykkt var á Alþingi 1991, er rifjuð upp og átti sá sem hér talar nokkurn hlut í því sem formaður félmn. sem vann það mál í hendur þingsins. Þar segir: ,,Koma þarf í veg fyrir að fólk, sem ekki reykir, þurfi að líða tóbaksreyk. Verð á tóbaksvörum ætti að hækka umfram aðrar verðhækkanir. Útiloka ber áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara.``

Þetta segir í ályktun sem samþykkt var vorið 1991 á Alþingi og undir heitinu ,,Heilbrigðisáætlun til ársins 2000`` og ætti að vera stuðningur við þau markmið sem við höfum verið að ræða um og ekki virðist vera ágreiningur um við hæstv. ráðherra.

Efst á bls. 6 í greinargerð stendur:

,,Tóbaksneysla Íslendinga er nú fyrst og fremst í nafni reykinga. Tóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.``

[17:00]

Það er sennilega það sem hv. formaður heilbr.- og trn. var að vitna til í sambandi við neftóbaksneyslu sína en hér vantar greinilega í og er þetta þingskjal þó prentað upp. Þetta er óvandvirkni í sambandi við framlagningu málsins því að þetta er botnleysa sem hér stendur í greinargerð. Er ég þá ekki að fara út í málfar sem mætti einnig að finna og er auðvitað full ástæða til að gera athugasemdir við eins og þá áráttu að vera að fleirtölukenna orð á bls. 6 í greinargerð eins og krabbamein þar sem talað er um tíðni krabbameina í munni og þar sem talað er um neyslufaraldra meðal barna og unglinga. Þetta er sérkennilegt málfar. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að sjá til þess að betur sé vandað til þingskjala sem hæstv. ráðherra ber fram fyrir þingið og ber þá að nefna að þetta er á ábyrgð ráðuneytanna. Þau stjórnarfrumvörp sem hér koma fram eru ekki að ég best veit lesin, leiðrétt og færð til rétts máls af starfsmönnum Alþingis, heldur er þetta á ábyrgð ráðuneytanna. Því er ástæða til að vekja athygli á svona hortittum þótt það sé kannski ekki jafnalvarlegt og það sem á vantar að öðru leyti.

Kemur þá að því sem ég óskaði eftir, virðulegur forseti, og ætlaði aðeins að nefna við hv. formann heilbr.- og trn. sem hefur áhyggjur af banni við innflutningi á fínkorna nef- og munntóbaki og hefur lýst í rauninni andstöðu við þetta, hafi ég skilið málflutning hv. þm. rétt. Ég er með athugasemdir við umsagnir um þetta frv. frá síðasta þingi þar sem m.a. er fjallað um þetta efni. Frá Akureyri bárust umsagnir til nefndarinnar á síðasta þingi frá heilsugæslustöðinni þar, dagsett 6. febrúar 1995. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ástæða þessa bréfs og þessara tilmæla er að í starfi okkar verðum við verulega varar við notkun nemenda á fínkorna nef- og munntóbaki og þá miklu fíkn sem þessari notkun fylgir. Staðreyndin er sú að börn og unglingar hafa greiðan aðgang að þessu fínkorna tóbaki þrátt fyrir þau ákvæði að ekki megi selja tóbak börnum undir 16 ára aldri. Verulegar og varanlegar skemmdir á slímhúð nefs koma fljótlega fram hjá unglingum og dæmi höfum við um unglinga sem enn eru með slímhúðarskemmdir þrátt fyrir að liðin séu tvö til þrjú ár frá því að notkun var hætt. Máli okkar til stuðnings viljum við benda á nokkrar staðreyndir.``

Síðan er tekið upp hver aukningin hefur verið á innflutningi á þessari vöru frá 1987 og er hún mjög verulegt á þessu tímabili á milli ára. Hv. þm. hefur að sjálfsögðu aðgang að þessum umsögnum.

Síðan er fjallað um það hverjir eru neytendur og vitnað til könnunar sem gerð hefur verið á fjögurra ára fresti síðan 1974 á vegum Krabbameinsfélags Íslands og héraðslækna. Þar kemur fram sl. vor --- virðulegur forseti, ég vænti þess að hv. þm. hlusti --- að meðal drengja í 10. bekk eða 15--16 ára drengja er veruleg neysla á fínkorna tóbaki. 8,6% segjast nota það að staðaldri og 46,7% segjast nota það stöku sinnum. Síðan er vikið að því hvernig neyslan fer fram. Þessu fylgir síðan sérstakt bréf frá Akureyri, dagsett 12. febrúar, til formanns heilbrn. á næstsíðasta þingi, Sigurbjörns Gunnarssonar, þar sem skólahjúkrunarfræðingar leggjast mjög þungt á sveif með þessum sjónarmiðum. Ég bið hv. formann heilbr.- og trn. að íhuga þau rök sem þarna koma fram í sambandi við þetta mál og styðja sjónarmið þeirra sem hafa mælt fyrir því að Ísland reyni að komast í framlínu á nýjan leik í baráttunni við tóbaksnotkun.