Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:44:55 (3097)

1996-02-15 17:44:55# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:44]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra því hann hefur nú staðfest að það er rétt að útlendingar hafa beint aðgengi að fiski af íslenskum fiskimiðum í gegnum fiskmarkaði til útflutnings, til vinnslu úr því hráefni í útlöndum, til jafns við íslenska ríkisborgara. Hæstv. ráðherra hefur líka staðfest það að eins og frv. er úr garði gert geta erlendir fjárfestar með einum milliaðila í gegnum eignarhaldsfyrirtæki náð allt að 49% eignarhaldi á hvaða sjávarútvegsfyrirtæki sem er á Íslandi. Frv. kemur ekki í veg fyrir það heldur þvert á móti gerir það að verkum.

Hæstv. ráðherra hefur líka tekið undir með mér að það sé óeðlilegt að fyrirtæki í iðnrekstri, eins og niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjur og aðrar slíkar, séu flokkuð hér undir sjávarútveg og forsvarsmenn þeirra settir til hliðar hjá öðrum þannig að þeir megi ekki nýta sér erlent áhættufé. Ég mun óska þess mjög eindregið að hæstv. ráðherra standi þá með mér í því að fá þetta leiðrétt.

Hæstv. ráðherra hefur líka staðfest, tók það raunar fram í sinni framsöguræðu, að EES-borgarar og fyrirtæki sem starfa á því svæði hafa nú sama rétt og Íslendingar til að fjárfesta í orkufyrirækjum. Ég tel hins vegar að það sé ekki hægt að afgreiða þetta frv. núna án þess að samhliða séu afgreidd þau frv. um virkjunarrétt sem við hæstv. ráðherra höfum talað um og við alþýðuflokksmenn munum innan tveggja, þriggja daga leggja slík frv. fram á Alþingi, og ég treysti því að hæstv. iðnrh. nái samkomulagi í ríkisstjórninni um að leggja fram frv. af því tagi sem afgreiða megi þá fyrir vorið ef ekki verður fallist á að afgreiða frumvörp okkar alþýðuflokksmanna.

Að öðru leyti, herra forseti, þakka ég hæstv. iðn.- og viðskrh. svör hans áðan sem hafa staðfest þær upplýsingar sem ég kom fram með fyrr í dag.