Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:48:51 (3099)

1996-02-15 17:48:51# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:48]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið látið í það skína að þetta mál sé til þess að koma í veg fyrir það að erlendir aðilar öðluðust aðgengi að íslenskum fiskimiðum. Ég hef skýrt það og ráðherra hefur fallist á að svo er ekki. Þeir hafa þetta aðgengi og geta hvenær sem er flutt út fisk veiddan á íslenskum fiskimiðum til vinnslu erlendis án þess að þjóðin hafi nokkurn arð af þeirri auðlind sinni.

Í öðru lagi hefur komið í ljós að ákvæðin, sem áttu að vera til þess að óbein eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum yrði ekki meiri en segir í 1. gr. frv., eru marklaus vegna þess að hæstv. ráðherra hefur sjálfur viðurkennt að þessi óbeina aðild geti orðið allt að 49%. Tökum bara dæmi um fyrirtæki eins og Granda sem er í dreifðri eignaraðild. Halda virðulegir þingmenn að þeir sem stýra og stjórna Granda þurfi svo mikið til þess að ráða þar öllu? Ætli þeim nægði ekki 12--15%, kannski 20% óbein eignaraðild að Granda hf. til þess að ráða alfarið því fyrirtæki? Hæstv. viðskrh. hefur fallist á það, hann er búinn að viðurkenna það að ákvæði 1. gr., þar sem látið er í veðri vaka að óbein eignaraðild erlendra fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi geti ekki verið nema óveruleg, það er bara ekki rétt. Því með einum millilið, fyrirtæki sem er 100% í eign þeirra, þá geta þeir haft ítök sem samsvarar 49% eignaraðild í öllum fyrirtækjum landsins. Með því, eins og ég sagði, að eiga 49% í eignarhaldsfélagi, sem kaupir t.d. Olís sem getur þar með keypt hvert einasta hlutabréf í hverju einasta fyrirtæki í sjávarútvegi eða fiskvinnslu í öllu landinu. Þar með eru eignarhaldsáhrif hinna erlendu aðila, óbein að vísu, orðin 49%. (Forseti hringir.) Það er því ekkert hald í ákvæðinu í 1. gr. Það er marklaust ákvæði. Enda, virðulegi forseti, hvers eiga forráðamenn sjávarútvegsfyrirtækja að gjalda? Að vera einu atvinnurekendurnir (Forseti hringir.) í landinu sem er ekki treyst fyrir því að meta það hvort þeir vilja fá til uppbyggingar (Forseti hringir.) fyrirtækja sinna erlent lánsfjármagn eða erlent áhættufjármagn? Ef einhver vantreystir forsvarsmönnum atvinnufyrirækja (Forseti hringir.) í landinu, sjávarútvegsfyrirækja, þá eru það þeir sem vilja banna þeim að standa jöfnum fótum á við aðra atvinnurekendur í landinu.

(Forseti (ÓG): Forseti minnir á að tími til andsvara er tvær mínútur en ekki þrjár.)