Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:54:08 (3101)

1996-02-15 17:54:08# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Umræða um þau þingmál sem hér eru á dagskrá hefur farið fram við dálítið sérstakar aðstæður og með nokkuð sérstæðum hætti þar sem undir sama dagskrárlið eru tekin þrjú frumvörp, stjórnarfrumvarp og tvö þingmannafrumvörp, sem er nýmæli og með því er verið að skapa ákveðið fordæmi. Ég er ekki að finna að því út af fyrir sig eða halda því fram að það sé gegn þingsköpum. Þau heimila slíkt en þetta er ekki alveg venjulegt. Síðan hefur það gerst að umræða um þessi mál hefur farið fram á fleiri dögum og slitnað allnokkuð í sundur og nú gerist það síðla á þessum degi að efnt er til sérstakrar umræðu, ef ég skil það rétt, fyrir hv. 4. þm. Vestf., sem hefur fengið hæstv. viðskrh. til að vera hér viðstaddan til þess að taka þátt í umræðunni og setur það enn sérstakan svip á sögu þessarar 1. umr. um málið, fyrir utan síðan allan málatilbúnaðinn og þau frv. efnislega sem hér liggja fyrir. Síðan gerist það af hálfu þess ræðumanns, sem hóf umræðuna á fundinum, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að hann stígur hér í stólinn og telur sig vera að reiða fram einhver alveg ný sannindi og ganga hér fram fyrir aðra í því að taka á málum sem hafi legið á milli hluta í þessari umræðu. Hann kemur hér nánast sem frelsandi engill, ekki aðeins að hann frelsi hv. þm. Kristján Pálsson frá því að þurfa að vera að baksa við þetta frv. með 49% eignaraðildarheimild útlendinga í sjávarútvegi því það sé bara ,,implicit``, það felist nánast í stjórnarfrv., heldur ætlar hann jafnframt að gerast forgöngumaður þess að skjóta skildi fyrir íslenskar orkuauðlindir og boðar það. --- Hvar er nú hv. þm., virðulegi forseti, sem hóf þessa umræðu? Nú er hann bara horfinn.

(Forseti ÓE): Forseti gerir ráðstafanir til þess að hann komi í salinn.)

Mér finnst það, virðulegi forseti, við hæfi í ljósi þess málflutnings sem hér var hafður uppi. Ég geri hlé á ræðu minni á meðan, með leyfi forseta.

(Forseti (ÓE): Já. Forseti stöðvar klukkuna. --- Það er upplýst að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er í fréttaviðtali hér í Kringlunni en kemur um leið og því er lokið. Hv. þm. gerir hlé á ræðu sinni á meðan. --- Hv. 4. þm. Austurl. heldur áfram ræðu sinni.)

[18:00]

Virðulegur forseti. Ég gerði hlé með leyfi forseta á ræðu minni þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vék úr þingsal og kom ekki aftur en tilefni þess að ég bað um orðið hér og nú voru ummæli hans og svigurmæli í minn garð í ræðu hans áðan, en hv. þm. ástundar málflutning og hegðan gagnvart þinginu sem er nokkuð sérstök. Hann efnir hér og fær leyfi forseta til þess að koma inn í umræðuna og þetta mál er tekið sérstaklega á dagskrá að beiðni þingmannsins sem hefur fengið hæstv. iðn.- og viðskrh. sérstaklega til þess að vera viðstaddan. Að því búnu, eftir að vera búinn að kasta glósum til annarra þingmanna, þá hleypur hann á dyr til þess að eiga viðtöl, undirbúin viðtöl við fréttamenn. Þetta er framkoma gagnvart þinginu, virðulegur forseti, sem er til skammar fyrir viðkomandi þingmann og ég tel fulla ástæðu til að nota það orðalag vegna þess að þetta er mjög óvenjulegt og gróft.

En þá kemur að efninu sem ég ætlaði að halda hér áfram í sambandi við málflutning hv. þm. Látið er að því liggja að hann sé að koma fram með einhverja nýja hluti, einhver ný efni inn í þessa umræðu. Hann er berja sér á brjóst fyrir það að vera að opinbera hér eitthvað og gerast forgöngumaður til að skjóta skildi, ef ég skil rétt, fyrir íslenskar auðlindir og flytur þau tíðindi hér að Alþfl., væntanlega þingflokkurinn allur, ætli að hafa fyrir því að innan tveggja til þriggja daga að flytja inn í þingið frumvörp varðandi auðlindir í jörðu og virkjunarrétt fallvatna vegna þeirra ákvæða sem eru í þessu frv. Hann lætur það jafnframt fylgja, virðulegur forseti, að þetta mál hafi ekki verið fært inn í umræðuna hér áður og þetta séu alveg ný bjargráð sem Alþfl. sé að finna upp. Ég veit ekki hvort hægt er að leggjast öllu lægra í málflutningi heldur en þetta. Hv. þm. veit það að á þingum frá því 1983 hefur sá sem hér talar verið fyrsti flutningsmaður þingmáls sem hefur komið fram á mörgum þingum, áreiðanlega tíu að því er varðar jarðhita, og eitthvað aðeins sjaldnar en þó mjög oft varðandi virkjanarétt fallvatna, flutt frv. þess efnis að lýsa þessi verðmæti, þessar auðlindir þjóðareign. Þessi mál hafa legið fyrir iðnaðarnefndum þingsins jafnoft og frv. hafa verið flutt og hæstv. iðnrh. var að víkja að í máli sínu áðan að þessi mál hefðu vissulega verið til skoðunar af hálfu ráðuneyta vegna flutnings þingmanna á tilteknum málum. Sama daginn og mælt var fyrir þessu frv. tók ég þetta mál upp sérstaklega hér í þingsal með því að inna hæstv. iðnrh. eftir því hvað liði undirbúningi að stjfrv. sem hæstv. ráðherra boðaði að mundi koma hér strax að jólahléi loknu vegna þess að starfshópur, sem ríkisstjórnin samþykkti að skipaður yrði 17. okt., gerði sérstaka samþykkt um það, ætti að skila áliti fyrir jól. Í svari hæstv. ráðherra kom hins vegar fram að á því hefði orðið dráttur og þingheimur heyrði orð ráðherrans áðan þar sem hann taldi sér til efs að það tækist að lögfesta ákvæði um þessi efni á grundvelli frv. þótt fram kæmi af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að það þarf dálitla óskammfeilni til af hálfu þingmanns Alþfl., Sighvats Björgvinssonar, hér áðan að taka til orða eins og hann gerði og ætla að gerast hér einhver sérstakur bjargvættur í þessum efnum. Alþfl. átti aðild að ríkisstjórn með Sjálfstfl. frá 1991 til 1995, í heilt kjörtímabil. Og í stjórnarsamningi þeirrar ríkisstjórnar var kveðið á um það að lögfesta skyldi ákvæði um þessi efni og óvenjunákvæmlega tilgreint með hvaða hætti og hvenær því það skyldi gerast á 115. löggjafarþinginu. Þá skyldi þetta lögleitt. Og auðvitað var það m.a. með hliðsjón, það dreg ég ekki í efa, af undirbúningi samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði þar sem öllum var ljóst --- og utanríkisráðherra þeirrar ríkisstjórnar ljósara en flestum öðrum --- að það gæti orðið óvissa um það að fá fram undanþáguákvæði að því er varðaði auðlindir landsins, auðlindir í jörðu og virkjanarétt fallvatna inn í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði hliðstætt því sem menn voru að vinna að í sambandi við fiskveiðarnar og þar sem tókst að halda rétti Íslendinga til lagasetningar á því sviði. Síðan lýkur stjórnarsamstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. án þess að gengið sé frá þessari löggjöf og var þó vissulega af minni hálfu og fleiri á hv. Alþingi spurst fyrir um þessi efni, ýtt á eftir bæði með með flutningi tillagna og frumvarpa og með fyrirspurnum ítrekað til ráðherra á hverju einasta þingi á síðasta kjörtímabili.

Virðulegur forseti. Óskammfeilni Alþfl. og virðulegs hv. þm., sem talaði fyrir hönd hans áðan, er með þeim hætti sem hér um ræðir. Hv. þm. hefur væntanlega verið að flytja fjölmiðlum landsins, ríkissjónvarpinu, þær fréttir að Alþfl. ætlaði innan tveggja eða þriggja daga að leggja fram frumvörp varðandi málið hér á Alþingi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, talsmaður Alþb. í þessari umræðu, vék að þessum þætti málsins í sinni fyrstu ræðu hér og minnti á tillögur Alþb. um þessi efni og nauðsyn þess að gengið yrði frá lagasetningu sem tryggði íslensk yfirráð yfir þessum auðlindum áður en lögfest yrði þetta frv. hér. Þannig að hv. þm. er ekki að finna upp neitt púður.

Þá kem ég að sjávarútveginum og málflutningnum þar að lútandi. --- Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ég ætla ekkert að efast um pólitískan vilja Alþfl. í sambandi við auðlindir í jörðu eða virkjanarétt fallvatna. Ég er ekki að halda því fram hér. Ég treysti því enn að það sé pólitískur vilji hjá Alþfl., hliðstæður því sem við alþýðubandalagsmenn höfum sýnt með okkar tillöguflutningi, að varðveita þjóðareign á þessum auðlindum og ég ætla ekki að gefa neitt lítið fyrir það og bið menn ekki að skilja mitt mál þannig. Ég er að finna að því hvernig málin eru sett fram hér. --- Þar er hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að láta að því liggja að hann sé að grafa upp einhver alveg ný sannindi í sambandi við stjórnarfrumvarpið. Og hann er að öðrum þræði að finna að því sem þar er og láta að því liggja að þetta frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt hér fyrir sé óframkvæmanlegt. Síðan les hann það í málið að vegna þess að þetta frv. sé óframkvæmanlegt og feli auk þess í sér að með óbeinni eignaraðild geti útlendingar eignast allt að 49% í fyrirtækjum hér þá verði menn bara að taka undir stefnu Alþfl. í þessu máli sem er sú að opna allt upp á gátt og fella brott lagaákvæðin sem heimild fékkst til í sambandi við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, að Alþingi hefði í höndum sér löggjafarvald að því er varðar fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða, þá verðum við bara að hverfa frá því, setja sjávarútveginn í heild undir hin almennu fjárfestingarákvæði samkvæmt EES-samningnum og koma síðan á veiðileyfagjaldi til þess að bregðast við þessum aðstæðum. Þetta er það sem hv. þm. er að koma á framfæri, á sama tíma og hann gagnrýnir stjfrv. af því að það gangi ekki nógu langt í þessum efnum en fullnægi þó því frv. sem hv. þm. Kristján Pálsson hefur gerst flm. að. Það er ekki rétt vegna þess að á því er verulegur munur hvort menn eru að tala um óbeina eignaraðild eða beina eignaraðild að fyrirtækjum alveg á sama hátt og það er mikill munur á því, virðulegur forseti, sem hins vegar hefur verið reynt hér ítrekað í þessum umræðum, að leggja nokkurn veginn að jöfnu lánsfé í fyrirtækjum og beina fjárfestingu í viðkomandi fyrirtæki. Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Að mínu mati er hann það ekki.

Síðan kemur hv. þm., og þar lagðist hann nú lægst í málflutningi sínum, og lætur að því liggja að við alþýðubandalagsmenn og kannski sérstaklega sá sem hér stendur ætluðum að fara að taka afstöðu til mála á þingi varðandi þessi efni eða værum að haga málflutningi okkar hér vegna þess að eitthvert tiltekið fyrirtæki austur í Neskaupstað byggi við þær aðstæður að þar væri um að ræða óbeina eignaraðild erlendra aðila í því fyrirtæki. Ég vil ekki segja margur heldur mig sig, virðulegur forseti, vegna þess að ég vil ekki greina þær hvatir sem liggja að baki hjá hv. þm. í slíkum málflutningi. (JBH: Sambærileg fyrirtæki á Ísafirði.) En virðulegur forseti, þetta minnti mig á það þegar hv. þm. sem heilbrrh. fór að draga eiginkonu þess sem hér stendur inn í umræðu og að ætla þeim sem hér talar að taka afstöðu til heilbrigðismála út frá því að maki minn væri starfandi sem læknir. Það er því miður ekki nýtt að hv. þingmaður hagi máli sínu með viðlíka hætti og hann gerði í dag. Það er ekki nýtt en það eru fáir á Alþingi Íslendinga sem haga máli sínu með svipuðum hætti. Þeir eru sem betur fer fáir og hv. þm. verður að eiga það að vera í sérflokki að því er þetta snertir.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að viðhorfi mínu í sambandi við eignaraðild útlendinga í íslenskum auðlindum. Ég held að það liggi fyrir bæði úr tillöguflutningi mínum hér í þinginu, afstöðu minni til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, afstöðu minni til tillagna varðandi fjárfestingu útlendinga í íslensku atvinnulífi 1991, þegar ég hafði sérstöðu í ýmsum greinum af þeim sem voru þá aðilar að ríkisstjórn, þannig að ég læt nægja, virðulegur forseti, að vísa til þeirrar afstöðu. Mér kemur ekkert á óvart það sem frá Alþfl. kemur í þessum efnum, og síst af öllu það sem frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni kemur, en það hryggir mig að sjá og heyra þann málflutning sem uppi hefur verið hafður af þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa borið hér fram frv. um það að opna fyrir 49% eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Ekki vegna þess að það sé ekki þeirra góði réttur að flytja slíkar tillögur á Alþingi, við getum haldið hverju fram sem við viljum í þeim efnum, en rökstuðningurinn finnst mér ekki aðeins vera brothættur, mér finnst hann ekki ganga upp. Og ég trúi ekki öðru en að þingmenn sem eiga að þekkja til í íslensku atvinnulífi og sem áreiðanlega vilja viðhalda okkar yfirráðum í reynd og ekki tefla á tvær hættur skuli ganga fram með tillöguflutning af þessu tagi á sama tíma og menn eru að reyna að vinna sig fram úr verulegum vanda sem við er að fást vegna þess hvernig frá málunum var gengið þegar samið var um hið Evrópska efnahagssvæði og þær reglur leiddar í lög á Íslandi sem þá var gert, með undanþágum þó, en verulegu gráu svæði sem var ófrágengið og sem verið er að fjalla um í því stjfrv. sem hér um ræðir.