Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:20:53 (3104)

1996-02-15 18:20:53# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:20]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að misskilningurinn stafi af því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson telji það til svigurmæla að segja sannleika um að erlendir aðilar eigi beina eða óbeina eignaraðild að tilteknu fyrirtæki á Íslandi. Ég lít hins vegar ekki á það sem svigurmæli. Ég lít á það sem sjálfsagðan hlut. Þess vegna er ég ekki að mæla svigurmæli þegar ég segi frá því að Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað sé í hópi þeirra fyrirtækja á Íslandi þar sem óbein erlend eignaraðild er hvað mest. Það eru ekki svigurmæli í mínum munni. En það eru svigurmæli í eyrum hv. þm. því hann er á móti þessu. Það er engu að síður athyglivert að þetta fyrirtæki, sem svo háttar til um og ég hef síður en svo á móti að svo hátti til um, er í heimabæ hv. þm. sem hefur í mörg herrans ár verið undir stjórn flokksbræðra hans, þar á meðal þetta fyrirtæki. En þetta eru ekki svigurmæli í mínum munni. Þetta eru svigurmæli bara í eyrum hv. þm. því hann er á móti því að hafa þetta svona.