Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:25:32 (3107)

1996-02-15 18:25:32# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú staða sem uppi er í sambandi við óbeina eignaraðild fyrirtækja í sjávarútvegi er vissulega þess eðlis að það þarf að skoða það og gaumgæfa. Það er ekki búið að afgreiða það mál sem hér liggur fyrir, það stjfrv. Það er hér til 1. umr. og verður til skoðunar. Auðvitað þarf að vanda þá athugun mála. Formaður sjútvn. sem fjallar um þetta mál er hv. 4. þm. Norðurl. e. og ég treysti honum fyllilega til þess að vanda skoðun mála að því er varðar veiðiþáttinn sérstaklega, það frv. sem þar er um að ræða. En rétt er það að í efh.- og viðskn. á sami þingmaður sæti en að vísu ekki sem formaður. Ég tel að það sé áhyggjuefni þau ítök sem útlendingar geta haft í gegnum óbeina eignaraðild og það verði að horfa af fullu raunsæi á það efni.

Spurningin um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt, sem Alþfl. hefur vísað til sem lausnar, er spurning sem ekki hefur haft fylgi í mínum flokki, ekki hefur verið meiri hluti fyrir í Alþb. þó einstakir menn hafi viljað skoða það. Við í Alþb. höfum út af fyrir sig ekki hafnað því að skoða þann vanda sem við blasir. En við höfum ekki verið hlynntir því að taka þetta upp. Við höfum ekki verið það. Við höfum viljað taka á þessum málum þannig að þjóðareignin á auðlindinni væri raunhæf. Að það væri innihald í fyrstu lagagreininni um stjórn fiskveiða. Við vorum fyrstir manna árið 1984, virðulegur forseti, og sá sem hér talar til þess að vekja athygli á nauðsyn þess að lögfesta þetta atriði sem svo var upp tekið árið 1987.

En sá vandi sem blasir við í sambandi við sjávarútveginn, bein eða óbein ítök útlendinga í þeim efnum, er vissulega þess eðlis að það vekur áhyggjur og menn þurfa að skoða það mál.