Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:28:09 (3108)

1996-02-15 18:28:09# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:28]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að láta í ljós þá skoðun að þetta hafi verið hin þarfasta og gagnlegasta umræða. Það hefur einkum verið bent á tvenns konar hættu að því er varðar fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Númer eitt að með óbeinum hætti geti erlendir fjárfestar náð þeim tökum á íslensum útgerðarfyrirtækjum að þeir hafi ráðstöfunarrétt á afurð auðlindarinnar, fiskinum. Í annan stað að menn geti ekki reist skorður við því að óunninn fiskur fari úr landi að þeirra boði.

Nú er auðvitað spurningin um það hvort um er að ræða annars vegar eignarrétt eða nýtingarrétt. Við erum sammála um að það beri að gera stjórnskipulega virkt ákvæðið um sameign þjóðarinnar á sjávarútvegsauðlindinni. Við stöndum hins vegar sameiginlega frammi fyrir þeim vanda að í þeim lagaákvæðum, þeim lagaskorðum, sem hafa verið settar og er verið að reyna að setja, er ekki hald. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ef menn eru sammála um það að við viljum tryggja íslensku þjóðinni rentuna, arðinn af auðlindaeign hennar, hvort heldur er á sjávarútvegsauðlindinni eða á orkulindunum, eigum við nú ekki annan kost en þann að gera þessi ákvæði um sameignina virk með því að innheimta auðlindagjald, veiðileyfagjald eða virkjunarréttargjald af þessum aðilum. Ef það verður sameiginlega niðurstaða þessara flokka, og ég virði það að þau sjónarmið hafa ekki átt upp á pallborðið í Alþb. hingað til að því er varðar sjávarútvegsauðlindina, þá tel ég það stórtíðindi í íslenskri pólitík og breyta mjög verulega ekki bara að því er varðar efnislega niðurstöðu í þessu máli heldur mörgu fleiru.