Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:19:17 (3117)

1996-02-19 15:19:17# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:19]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Málið er vissulega alvarlegt og ástæða til að ræða það. Um það leyti sem samningar eru að ganga saman vegna yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga er sem sprengju sé kastað inn í umræðurnar og kennarafélögin ákveða að draga sig út úr öllu samstarfi. Hvað er eiginlega um að vera? Jú, kennarasamtökin hafa verið að semja um það að halda óbreyttum réttindum eftir flutninginn til sveitarfélaganna en um leið vinnur ríkisstjórnin með hinni hendinni að því að skerða réttindi ríkisstarfsmanna á fjölmörgum sviðum ef marka má fréttir í fjölmiðlum því að ekki höfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar séð þau lagafrv. sem um ræðir, hvort sem um er að ræða frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða frv. til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða frv. um samstarfsreglur á vinnumarkaði. Að því leyti er þessi umræða ótímabær en vissulega er það alvarlegt mál ef kennarar hætta samstarfi um yfirfærslu grunnskólans sem allir töldu að væri að ganga saman.

Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Hver man ekki eftir útspili hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar í haust þegar kjaramálin og Kjaradómur og laun alþingismanna voru í brennidepli? Þá bauð hann fram allsherjarsamráð um þær breytingar sem væru fram undan á kjaramálum í landinu og ekki síst hjá starfsmönnum ríkisins. Ekki verður séð að unnið sé af fullum heilindum. Eða er það álit menntmrh.?

Við kvennalistakonur teljum mjög mikilvægt að sátt náist um flutning grunnskólans sem á vafalaust eftir að reynast til bóta fyrir grunnskólann og lýðræðið í landinu. Viðbrögð kennara eru mjög eðlileg vegna þess að á sama tíma og allt er að ganga saman og þeim er sagt að þeir haldi fullum réttindum er verið að semja um kjaraskerðingar með hinni hendinni. (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Því endurtek ég spurningu mína til hæstv. menntmrh. Er unnið af heilindum að hans mati? Er eðlilegt að semja um óbreytt kjör og semja svo með hinni hendinni um kjaraskerðingu í þeim dúr sem hér um ræðir.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir enn einu sinni á tímamörkin. Það eru það margir hv. þm. á mælendaskrá að forseti biður þingmenn að gæta tímamarka.)