Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:39:21 (3125)

1996-02-19 15:39:21# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna er stórt verkefni og vandasamt. Þess hefur ákveðins óöryggis gætt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og kennaranna gagnvart ríkinu og sveitarfélögunum á meðan á meðferð málsins hefur staðið. Ákveðin tortryggni hefur einnig verið á ferðinni. Það er þess vegna þeim mun verra að mál skuli æxlast með þeim hætti sem nú hefur gerst vegna þess að kennararnir og fulltrúar sveitarfélaganna hafa þó þrátt fyrir allt tekið þátt í allri þeirri vinnu sem þurft hefur að fara í og farið hefur verið í af heilindum og af umyggju fyrir grunnskólanum. Menn gera sér ljóst að í gegnum grunnskólann liggur það sem er e.t.v. mikilvægast fyrir okkur öll, það er menntun barnanna okkar. Og mönnum er hreint ekki sama með hvaða hætti grunnskólinn er starfræktur hér á landi eða hvernig að honum er búið. Þess vegna eru svör hæstv. menntmrh. hér í dag ekki fullnægjandi. Þau byggjast ekki á þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir, þau byggjast því miður á óskhyggju. Ég tek nefnilega mark á ályktun kennarafélaganna og það ætti hæstv. menntmrh. líka að gera. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kennarafélögin hafa því að svo komnu máli ákveðið að draga sig út úr öllu samstarfi um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og lýsa fullri ábyrgð á hendur stjórnvöldum.``

Það er ástæða til að taka fullt mark á þessari ályktun vegna þess, virðulegi forseti, að þessi tilflutningur verkefna, það að sveitarfélögin taki við grunnskólanum eins og um hefur talað, snýst aðallega um það að kennararnir verða starfsmenn sveitarfélaganna en ekki starfsmenn ríkisins. Ef menn halda að hægt sé að fara í þessa breytingu í fullkomnu ósamkomulagi við þá sem breytingin snýst fyrst og fremst um, er það mikill misskilningur. Hæstv. menntmrh. verður að koma fram með betri svör en þá óskhyggju sem birtist í ræðu hans áðan.