Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:41:53 (3126)

1996-02-19 15:41:53# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:41]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í máli mínu kom ekki fram nein óskhyggja heldur lýsing á stöðunni eins og hún er. Það hefur tekist samkomulag við kennara um það hvernig staðið skuli að réttindum og skyldum kennara og skólastjórnenda grunnskólans við flutning hans til sveitarfélaganna. Það er alrangt hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að þetta frv. sé blaut tuska framan í kennara. Þvert á móti er þetta frv. samið að óskum kennara bæði að formi og efni. Þannig að þeir eru fullsáttir við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir og kemur fram í greinargerð þess. Það er alrangt hjá hv. þm. að láta eins og þetta frv. sé samið í andstöðu við kennara. Þvert á móti. Þetta er enginn útúrsnúningur, þetta er staðreynd málsins. Þessi umræða ber því miður merki þess að hv. þingmenn hafa ekki kynnt sér málið. Þeir blanda tveimur, þremur eða fjórum málum saman og reyna síðan að gera flutning grunnskólans til sveitarfélaganna tortryggilegan á þessum misskildu og tilbúnu forsendum. Annars vegar er talað um óskhyggju mína sem er engin því ég byggi þetta mat mitt á raunsæi og hins vegar tala menn hér á tilbúnum forsendum eins og hv. þm. Svavar Gestsson sem hvarf eins og svo oft áður aftur í tímann þegar hann fjallar um málefni hér. Ég hélt að hann kærði sig síður um að ræða söguna, fortíð sína í stjórnmálum eða fyrri stjórnmálaskoðanir. Það ber allt að sama brunni þegar hann tekur til máls, a.m.k. ef ég á í hlut. Hann lætur alltaf eins og hann sé staddur hér í þingsalnum upp úr 1930, blessaður hv. þingmaðurinn.

Eins og fram hefur komið er alls ekki verið að vinna að því að taka af kennurum eitt og semja við þá um annað. Þvert á móti. Með þessu er verið að tryggja réttarstöðu kennaranna þegar þeir verða starfsmenn sveitarfélaganna. Það sem hins vegar er verið að ræða um á vettvangi ríkisstjórnarinnar og í samráði við ríkisstarfsmenn er það hvernig réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna verði háttað. Annars vegar er verið að tala um flutning kennara yfir til sveitarfélaganna og hins vegar er ríkisvaldið að ræða um það hvernig réttindum ríkisstarfsmanna skuli háttað.

Framhaldsskólakennarar verða áfram starfsmenn ríkisins. Frv. um það hefur legið fyrir allt frá árinu 1994 og koma þar fram tillögur um breytingar á starfskjörum þeirra. Það er því algjörlega rangt að segja að framhaldsskólakennurum hafi ekki verið ljós stefna ríkisins varðandi starfsréttindi þeirra. Það liggur fyrir í frv. til laga um framhaldsskóla og þeir hafa einnig andmælt því frv. á þeim forsendum.

Herra forseti. Ef ég má aðeins víkja að kostnaðarþættinum þá er það rangt að menn hafi lofað því að greiða viðbótarkostnað vegna einsetningar. Því hefur aldrei verið heitið af ríkisvaldinu. Hins vegar eru þessar viðræður að hefjast núna, lokaþáttur viðræðnanna milli ríkisins og sveitarfélaganna. Ég vænti þess fastlega að samkomulag takist á þeim vettvangi.