Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:18:24 (3131)

1996-02-19 16:18:24# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:18]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson beindi til mín spurningu varðandi atriði sem ég gerði að umtalsefni, þ.e. eignarhlutur Olíuverslunar Íslands í sjávarútvegsfyrirtækjum og þá staðreynd að stærsti hluthafi í Olíuverslun Íslands er Texaco með 35%. Samkvæmt þessu frv. má eignaraðild vera allt að 33%. Eignaraðild Texaco er hins vegar 35% þannig að hún brýtur í bága við frv. Svo háttar til með Olís að það á í þremur fyrirtækjum sem eru yfir 5%. Ég nefndi Síldarvinnsluna því að þær upplýsingar liggja opinberlega fyrir.

Ákvæðið sem hv. þm. gerði að umtalsefni er ákvæði til bráðabirgða í gildandi lögum. Í frv. er ekki þetta ákvæði til bráðabirgða eins og var í lögunum. Þar er hvergi vikið að þessu. Ég veit hins vegar heldur ekki, herra forseti, hvenær Olíuverslunin keypti þessa tilteknu hluta. Það má vel vera að í þessari stöðu sé gagnvart einstökum atriðum einhvern vörn í málinu, ef svo má að orði komast. Við vitum og hv. þm. veit ósköp vel að fjárfestingar útlendinga, þótt með óbeinum hætti séu, hafa í raun verið ólögmætar. Það sem ég var fyrst og fremst að draga fram er að gagnvart einu félagi á Íslandi sem er Olíuverslunin hittir þetta frv. alveg sérstaklega. Í öðru olíufélagi sem ég tiltók þar er eignaraðild erlends aðila 21%. Þeir falla hins vegar innan þeirra marka sem þarna eru. Þetta atriði þarf að skoða alveg sérstaklega í þessu samhengi vegna þess að það er ótvírætt sem getið er um í lögunum um takmörkun á 33% eignarhlut. Menn geta sett inn ákvæði til bráðabirgða til að leysa það mál eða geri það á einhvern annan máta. En eins og þetta lítur út núna, þá mun þetta hitta þetta eina félag þó ég fullyrði ekki í einstökum atriðum hvernig það verður.