Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:23:13 (3133)

1996-02-19 16:23:13# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:23]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þóttist líka vera að vísa til frv. hér áðan. Í fylgiskjali I eru lögin eins og þau líta út eftir að þetta frv. væri samþykkt. Þar er ekki ákvæði til bráðabirgða eins og var í upprunalegu lögunum frá 1991. Vilji ríkisstjórnarinnar varðandi það efni kemur ekki fram í lögunum. Það er einfaldlega fært út í fylgiskjalinu.

Það má vel vera að ríkisstjórnin hafi ekki hugleitt þetta mál nægjanlega. Ég bendi hins vegar á að þetta mál snýst ekki um það að Olís verði að selja hluta úr Síldarvinnslunni. Það er ekki nægjanlegt samkvæmt þessu frv. Málið snýst um eignarhlut Texaco í olíuverslun, hann er yfir 33% mörkunum og raunverulega segir þetta frv. að Texaco verði að minnka hlut sinn í Olíuversluninni út af þessum lögum. Síðan gilda sérstök ákvæði varðandi að það verði að fara niður í 5% ef eignarhlutur liggur á milli 25 og 33%. Dæmið um Olís snýst ekki um hvort það eigi að selja hluta sinn í Síldarvinnslunni eða ekki. En eins og málið er sett upp hér má hlutafélag með meiri eignaraðild en 33% ekki eiga neitt í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það má eiga í þeim með takmörkuðum hluta frá 25% upp í 33% og ótakmarkað ef það er fyrir neðan 25%. Ég tók þetta sem dæmi í umræðunni til að vekja athygli á því hvernig þetta kemur út gagnvart einu félagi, fyrst og fremst til ábendingar á því að það þarf að skoða þessi mál í víðara samhengi en gert er í uppleggi ríkisstjórnarinnar.