Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:35:48 (3137)

1996-02-19 16:35:48# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:35]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki orða það svo að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi gert mér upp orð en ég er ekki tilbúinn til þess á þessu stigi að kveða upp úr hvaða afstöðu ég kunni að taka á þingmannsferli mínum um auðlindaskatt eða önnur grundvallaratriði í sjávarútvegi en bendi einfaldlega á þá staðreynd að mjög mikil umræða er innan þingsins og utan þingsins um þessi atriði, trygga eignaraðild og með hvaða hætti skuli ráðstafa arði á auðlindinni.

Þessi umræða á fyrirsjáanlega eftir að halda lengi áfram, bæði innan hv. þings og meðal almennings. Hver afstaða mín verður endanlega skal ég ekki kveða upp úr hér en ég tel að það þurfi að ljúka umræðunni eða hún þurfi að þroskast betur en orðið er áður en við opnum fyrir fjárfestingu erlendra aðila inn í íslenskan sjávarútveg og undirstrika að það er hygginna manna háttur að fara varlega í efnum eins og þessum, skoða þetta hvorki út frá skammtímasjónarmiði né einstökum fyrirtækjum eða með nokkrum hætti í skyndingu, heldur horfa til langs tíma. Reynslan sýnir að eftir að opnað hefur verið hvort sem það er á þessu sviði eða öðru þar sem miklir hagsmunir eru á ferðinni þá verður ekki aftur snúið. Ég er ekki að segja að ég óttist þá þróun sem gæti orðið þó að hér kæmi til erlend fjárfesting en göngum frá heimili okkar og fjármunum, ef ég má nota þá líkingu um þjóðarbúið og búskap okkar, áður en við bjóðum aðra velkomna þar inn.