Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:41:17 (3140)

1996-02-19 16:41:17# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson varpaði fram varnaðarorðum í þessari umræðu og það ber að skoða þau rök af gaumgæfni. Við erum að ræða þetta mál fram og til baka til að finna kosti og galla þeirra málefna sem við erum að tala um og öll rök sem fram eru færð eru af hinu góða.

Ég hef eina spurningu til hv. þm.: Hvernig lítur hann á dæmið sem ég lýsti áður í umræðunni um útgerðarmann sem fær einn milljarð að láni frá erlendum aðila, við skulum segja að það sé einhver höfn eða einhver stór matvælahringur, og kaupir fyrir það kvóta. Þetta er gersamlega löglegt. Maðurinn er með sjálfskuldarábyrgð á láninu og hann mun vissulega vera í snörunni ef illa gengur. Hann getur ekki borgað þetta lán til baka og hann gerir samning við þennan aðila um að selja honum fisk og hann er miklu háðari þessum erlenda aðila en nokkurn tíma sameignaraðila eða hluthafa. Hvernig lítur þetta út? Þetta er löglegt og ég vil benda á að við Íslendingar höfum tekið ótæpilega lán, meira að segja með ríkisábyrgð í gegnum ríkisbankana til útgerðarinnar. Mér skilst að útgerðin skuldi í dag 100 milljarða. Ég fullyrði að þetta er allt saman lán sem við erum háðari en ef þetta væri hlutafé.

Kannski snýst aðalmálið um eignarhaldið á auðlindinni. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á að það þyrfti kannski að aðskilja veiðar og fiskvinnslu vegna þess að veiðarnar væru aðgangur að auðlindinni. Það er akkúrat málið. Við þurfum að finna út úr því hvernig ætlum við að hafa eignarhald á auðlindinni og það er umræða sem ég er sammála hv. þm. um að má ekki bíða mikið lengur.