Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:43:29 (3141)

1996-02-19 16:43:29# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:43]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir fyrirspurn hans. Ég er ekki það skjótur að hugsa að ég næði að finna svör við því dæmi sem hann rakti áðan en ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að löggjafar er þörf um viðskipti og það fyrirkomulag sem nú er í hraðri breytingu í sjávarútvegi en tel að við getum haldið uppi lögum og unað við það ástand sem nú er þar til við höfum gengið frá þessum grundvallaratriðum sem ég er margbúinn að nefna um eignaraðild og arðtöku. Ég tel að það sé ekkert að brenna á okkar bæ. Ég tel að við getum fyllilega unað við þau lög og þær aðstæður sem hér eru nú og okkur séu önnur mál brýnni til úrlausnar en þau sem eru hér rædd.

Ég harma að geta ekki svarað þessu merka dæmi en undirstrika að ef það á að sýna þær ógöngur sem við erum komin núna í og viðskiptalífið sé á skjön við lagasetningu þá segi ég að við getum fyllilega beðið og við eigum að snúa okkur alfarið að þeim atriðum sem ég hef margnefnt hér.