Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:07:24 (3143)

1996-02-19 17:07:24# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:07]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Það dregur nú að lokum þessarar umræðu. Þetta hefur verið ítarleg umræða um þessi þrjú frumvörp. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að frv. hæstv. ríkisstjórnar um óbeina fjárfestingu er í reynd ekkert annað en staðfesting á gerðum hlut og því er ekki ætlað neitt annað hlutverk.

Ég geri greinarmun á óbeinni eða beinni fjárfestingu þó að vitaskuld sé hægt að draga upp dæmi um að þetta geti komið út með svipuðum hætti. En þessi óbeina fjárfesting eins og lagt er upp með í frv. ríkisstjórnarinnar skilar að mínu mati engu og getur meira að segja mismunað aðilum. Ég tel hins vegar að í frv. fjögurra sjálfstæðisþingmanna um 49% eignarhlutdeild sé í reynd verið að tala um að forræði í sjávarútvegsfyrirtækjum geti verið í erlendum höndum enda hafa ekki verið nefnd nein dæmi um það að 49% eignarhlutdeild sé ekki ráðandi hlutur. Það sem ég tel vera helstu kosti beinnar fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er samvinna í markaðsmálum, aukning á eigin fé og meira samræmi við breytt viðhorf í nútímarekstri. Hins vegar höfum við þingmenn Þjóðvaka lagt til varkárni í þessum þáttum. Við teljum að 20% bein eignaraðild sé eðlilegt skref svo að hér verði ekki um að ræða ráðandi hlut. Og þetta eru einmitt þeir þættir sem væntanlega verður tekist á um síðar í þinginu.

Ég vil geta um eitt atriði sem fram kom í umræðunni. Þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum ræddu um að skilja að veiðar og vinnslu. Þetta er mjög gömul umræða og satt best að segja býsna gamaldags í íslenskum sjávarútvegi. Þessi aðskilnaður er enn verr mögulegur en sá aðskilnaður sem við erum að tala um á milli óbeinnar og beinnar fjárfestingar. Þessari umræðu lauk fyrir þó nokkuð mörgum árum innan sjávarútvegsins með þeirri niðurstöðu að aðskilnaður veiða og vinnslu væri ekki mögulegur. Hins vegar hefur verið nefnt í umræðunni, fyrir helgi og reyndar aftur í dag, að frv. hæstv. ríkisstjórnar um óbeina eignaraðild þýðir að útlendingar geti eignast 49% hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þótt með óbeinum hætti sé. Þetta er rétt. En það sem meira er að frv. ríkisstjórnarinnar þýðir að útlendingar geta eignast meiri hluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, þ.e. 62% eignaraðild. Þetta gerist þannig, herra forseti, að fyrirtæki A sem er íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki getur verið í fullri eigu fyrirtækis B sem er að hluta í eigu erlends aðila, 25% sem er leyfilegt og 75% í eigu eignarhaldshlutafélags. Útlendingar mættu eiga 49% í þessu eignarhaldshlutafélagi en íslenskur aðili 51%. Það væri íslenskt forræði. Í þessu dæmi ætti því erlenda fyrirtækið tæp 37% með óbeinum hætti gegnum eignarhaldsfélagið og 25% óbeint í gegnum fyrirtæki B sem ég nefndi áðan. Þetta er 62% óbein eignaraðild erlends aðila. Ég vil geta þess að ég hef rætt þetta dæmi við hæstv. viðskrh. og hann hefur staðfest réttmæti þess. Það er því e.t.v. hætt við að ýmsir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar kikni í hnjánum þegar þeir heyra þessar tölur. Og það má spyrja sig: Er frv. hæstv. ríkisstjórnar trójuhestur sem ríkisstjórnin dregur nú inn í herbúðir sjávarútvegsins? Sumir mundu segja já. Ég segi nei. Ég segi að þessi aðferðafræði um óbeina eignaraðild í þriðja eða fjórða lið er röng í grundvallaratriðum og ekki marktæk enda þekkjum við ekki dæmi um það að óbein eignaraðild hafi valdið vandkvæðum í íslensku atvinnulífi. Og það er rangt þegar því er haldið fram í umræðunni að erlent forræði þýði að það sé hægt að fara með óunninn fisk úr landi. Það er ekki svo. Það gilda lög og reglur um þann þátt.

Aðalatriðið varðandi forræði er að það gilda íslensk lög og íslenskar reglur um meðhöndlun sjávarfangs hér á landi. Við erum að tala um íslensk fyrirtæki. Vitaskuld mundi öll þessi umræða batna ef við gerðum hana aðeins víðari og ræddum um að fiskur ætti að fara um fiskmarkaði og að við tækjum upp veiðileyfagjald til að staðfesta þjóðareign á þessum fiskstofnum. En þessi hræðsla við útlendinga lýsir sér e.t.v. best í því að nú þegar er þriðjungur botnfisksafla seldur á íslenskum fiskmörkuðum. Þar mega útlendingar versla. Fyrir tæpum 10 árum þegar menn vildu stíga þetta skref sem þá þekktist um allan heim voru aðalmótbárurnar þessar: Þetta þýðir að útlendingar koma og taka allan fisk og öll verðmætasköpun verður erlendis. Hefur það gerst? Vitaskuld ekki. Íslenskur sjávarútvegur og íslensk fiskvinnsla er sterkari en það. Þetta þarf að koma skýrar inn í umræðuna. Ef við viljum fá útlendinga inn í íslenskan sjávarútveg, erum við að gera það vegna þess að að er okkur hagkvæmt. Það er ekki vegna þess að útlendingum sé það eitthvað sérstaklega hagkvæmt. Við teljum það vera heppilegt vegna þess að það opnast ýmiss konar markaðsmöguleikar. Það styrkir eigið fé og það eflir samvinnu sem þegar er í mikil milli útlendinga og Íslendinga í sjávarútvegi. Aðalatriðið í málinu er vitaskuld að við erum með íslenskt forræði varðandi þennan þátt. Þess vegna tel ég, herra forseti, að það frv. sem við þingmenn Þjóðvaka lögðum fram um 20% beina eignaraðild lýsi ákveðinni hugsun varðandi nálgun á þessu máli. Það er engin hræðsla við útlendinga varðandi þátttöku. Hins vegar er farið varlega í þessari umræðu. En dæmið sem ég tók um frv. ríkisstjórnarinar sem getur þýtt 62% eignarhald útlendinga á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sýnir e.t.v. best í hvaða ógöngum umræðan er. Umræðan á ekki að snúast um útlendinga eða Íslendinga. Aðalatriðið er að það sé farið eftir íslenskum lögum og að verðmætasköpun sé hérlendis og hún sé fyrir íslenskt þjóðarbú. Og það gerum við með lagasetningu ef við kjósum svo. Erlend þátttaka í atvinnurekstri í sjávarútvegi hefur ekkert með fornar deilur okkar við útlendinga að gera í landhelgisdeilum. Þar vorum við að eiga við útlend fyrirtæki og erlent hervald. Hér er grundvallarmunur á. Það er forræðið sem við ákveðum hér með okkar löggjöf. Við gerum það hvort sem það er með takmarkaðri eignaraðild, veiðileyfagjaldi, fiskmarkaðstengslum eða öðru slíku. Menn verða að skynja í þessari umræðu að það eru sóknarfæri í því að taka þátt í þeirri eflingu heimsviðskipta sem þróun síðustu ára bendir til. Við eigum ekki að loka augunum fyrir þessari þróun. Við eigum að taka þátt í henni af fullum styrkleika þó svo að við eigum að fara með varkárni hvað viðvíkur þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar.