Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:21:32 (3146)

1996-02-19 17:21:32# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir þessi svör er ljóst að til þess að dæmið gangi upp um ráðandi áhrif gegnum óbeina eignaraðild verða menn að gefa sér þá forsendu að meiri hluti í hlutafélagi, 51%, ákveði að ráða ekki. Það er dálítið stór forsenda. Ég er alveg sammála hv. þm. Ágústi Einarssyni að 49% geta verið ráðandi. Þar geta menn komist áfram með sinn eignarhlut á milli fyrirtækja en það verður að halda því til haga að menn gefa sér að 51% eða meiri hlutinn nái ekki saman til að ráða. (Gripið fram í: Vegna dreifðrar eignaraðildar.) Vegna dreifðrar eignaraðildar. Þetta hefur ekki komið fram fyrr og er auðvitað mikilvægt að menn haldi þessari forsendu til haga. (Gripið fram í: Þetta er raunsæ forsenda.) Já, að mörgu leyti raunsæ en það er líka tiltölulega einfalt að setja girðingar í stjfrv. til þess að koma í veg fyrir þessa upphleðslu óbeinu eignaraðildarinnar og í því felst auðvitað gildi ábendingarinnar.

Varðandi seinni spurninguna um hugmyndir þjóðvakaþingmanna um óbeina eignaraðild er ljóst eftir svör hv. þm. að í raun og veru gengur þeirra frv. miklu lengra en frv. sjálfstæðisþingmannanna fjögurra. Þeir gera ráð fyrir 49% en í reynd er frv. þjóðvakaþingmanna opið fyrir erlendri eignaraðild að fullu. Þannig að það að setja í frumvarpstextann takmörkun á beinu eignaraðildinni um 20% er í reynd nokkurs konar blekking. Meiningin er sú að það sé ekki hægt að takmarka þetta og þar af leiðandi geti útlendingar átt fyrirtækin að fullu og öllu. Ekki er gert ráð fyrir að það verði takmarkað vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir að takmarka óbeinu eignaraðildina að 80%.