Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:57:09 (3150)

1996-02-19 17:57:09# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:57]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg sérstök ástæða til þess að þakka hv. 3. þm. Suðurl. fyrir þann landburð af þekkingu og vitsmunum sem hann hefur velt inn í umræðuna eins og mykjuhaug á vori, svo ég noti nú eitthvað af orðaleppum hans, þó það kunni kannski að bera vott um að hann hafi verið fjarverandi umræðuna og viti lítið um það hvað hér hefur verið sagt.

Kjarni málsins er sá að við erum sammála um eitt, nefnilega að þetta mál snúist í kjarna sínum um forræði yfir auðlindinni. Hv. þm. tók það margsinnis fram jafnframt því að hann sagði: Við skulum fara varlega. Við erum ekki til sölu. Nú er það svo að flokksbræður hans sem hafa hvað mest gagnrýnt fjórmenningana með 49% hafa einmitt sagt: Þarna er farið of geyst. Þarna er verið að skapa hættur. Og hætturnar sem þeir hafa fyrst og fremst tíundað eru að frv. stjórnarflokkanna haldi ekki og að erlendir aðilar geti komist bakdyramegin að auðlindinni, raunverulega eignast hana hvað svo sem líði gildandi lögum og fengið forræði yfir henni. Ef við erum sammála um að þetta mál snúist um að tryggja áfram íslenskt forræði yfir auðlindinni þá er það nú samt sem áður kjarni málsins. Og um það snýst það. Ef það er svo, eins og hæstv. viðskrh. hefur sagt, að frv. stjórnarflokkanna haldi ekki og það breyti engu hvort við höfum prósentur í beinni eignaraðild eða ekki, að það sé hægt að sýna fram á að forræði erlendra aðila náist hvort heldur er með beinni eða óbeinni eignaraðild, verður hv. þm. einfaldlega að svara því hvernig hann ætlar að gæta þess að auðlindin sé ekki til sölu. Hvernig ætlar hann að gæta þess að farið sé að með gát og varfærni o.s.frv.? Hv. þm. talaði að sjálfsögðu gegn betri vitund þegar hann sagði að við séum að tala um þjóðnýtingu. Og sem stuðningsmaður kvótakerfisins þá veit hann að það er verið að gera greinarmun á eignarrétti og nýtingarrétti. Við erum einfaldlega að segja: Lög í landinu segja að þjóðin eigi þessa auðlind. Við viljum tryggja að hún njóti arðs af þessari auðlind. Ef þetta frv. tryggir það ekki þá er ekki hægt að gera það öðruvísi en að taka upp veiðileyfagjald og það er ekki skattlagning á almenning í landinu.