Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:59:51 (3151)

1996-02-19 17:59:51# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:59]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé varla ástæðu til að svara þeim slettum hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar um að ég hafi verið fjarverandi þessa umræðu. Ég hef fylgst vel með þessari umræðu og ég vildi gjarnan vita hvers vegna hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson er að væna mig um það að hafa ekki fylgst með umræðunni. (JBH: Meira að segja ráðherrann hefur lýst því yfir að frv. haldi ekki. Það er vandinn.) Þetta hefur verið merk umræða að mörgu leyti og opnað ágætt svið í þeim efnum og ég fagna því að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson meinti ekki það sem hann sagði um það að hann vildi þjóðnýta íslenska fiskveiðiflotann. Það þykir mér gott að heyra. Það er engin ástæða til þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson með alla sína reynslu og þekkingu væni aðra um þekkingarleysi. Það ber vott um hroka. Ég virði vel reynslu og þekkingu hv. þm. Jón Baldvins í mörgum þáttum sem hann fjallaði um og ég er sammála að því leyti að umræðan snýst fyrst og fremst um að tryggja íslenskt forræði yfir auðlindinni. Ég ítreka aftur að ég var að vona að hv. þm. mundi sleppa því í fyrsta skipti í sögunni að nefna ekki í ræðu sinni auðlindaskatt eða veiðileyfagjald, það hefur venjulega fylgst að. Hann dró í land með að það væri kannski nóg að hafa auðlindaskatt. Það væri ekki skattur á þjóðina, veiðileyfagjald, en mér varð ekki að þeirri ósk minni. Auðvitað er þetta rétt að því leytinu til að þetta er spurning um að tryggja forræðið og þar eiga menn samleið.