Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:02:10 (3152)

1996-02-19 18:02:10# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:02]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið einkenni á þessari umræðu hingað til að hún hefur verið málefnaleg og það er einmitt kjarni málsins. Við erum sammála um að umræðan snúist um hvernig eigi að tryggja í verki, ekki aðeins í orði, forræðið yfir þessari auðlind. Hv. þm. hefur kannski verið fjarverandi þessa umræðu sl. fimmtudag vegna þess að þá kom fram að framsögumaður málsins, hæstv. viðskrh., lýsti því yfir að það væri rétt að frv. héldi ekki að því er það varðaði að koma í veg fyrir möguleika erlendra fjármagnseigenda gegnum óbeina eignaraðild. Þeir gætu náð forræði yfir auðlindinni. Þegar ég nefndi þetta tvennt að ef svo er þá er aðeins tvennt til ráða ef við erum sammála um kjarna málsins og meinum það. Í fyrsta lagi að þeir sem hafa nýtingarrétt að auðlindinni sem er í eign þjóðarinnar, þeir greiði fyrir það gjald og það er ekki skattlagning á almenning, það er misskilningur, og svo hitt að Íslendingar geti ráðið ráðstöfun aflans, þ.e. tryggt ef þeir svo vilja að ekki verði siglt út með óunninn afla þannig að virðisaukinn verði í erlendum höndum. Það þýðir ekki að það eigi að banna siglingu með afla, það þarf bara að tryggja að við höfum forræði yfir henni. Gjaldtaka fyrir nýtingu að auðlindinni þýðir að við tryggjum þar með forræði yfir auðlindinni og að eigandi auðlindarinnar fái arð af henni ef það er svo að ella geti erlendir aðilar gegnum óbeina eignaraðild tekið þetta hvort tveggja til sín. Ef einhver merking var í ræðu hv. þm. þá var hún sú að við ættum að tryggja þetta forræði, við ættum að fara varlega í því að hleypa útlendingum inn í þessa auðind og hvað réttlætir þá orðaleppana um mykjuhauginn, hvítvoðungsháttinn, þjóðnýtinguna og annað rugl sem hv. þm. skreytti mál sitt með?