Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:28:35 (3155)

1996-02-19 18:28:35# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:28]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að við fjórmenningar í Sjálfstfl. hefðum ekki endilega flutt frv. okkar til þess að það fengi afgreiðslu, það væri bara lagt fram til umræðu. Ég vil mótmæla þessari röksemdafærslu hv. þm. og tel að við höfum með fullum rökum lýst því hvernig við teljum að bein fjárfesting gagnist íslenskum sjávarútvegi betur en óbein fjárfesting. Ég vil bara benda á eitt af þeim dæmum sem hafa komið hér fram. Stór matvælahringur í Evrópu, eins og t.d. Unilever, getur keypt upp fiskmarkaði á Íslandi 100%. Hann má síðan kaupa 49% í íslensku matvælafyrirtæki sem gæti keypt 100% í stóru fyrirtæki eins og Granda. Þetta heimilar þeim ekki bara óbeina fjárfestingu upp á 49%, heldur torveldar þetta mjög alla ákvarðanatöku í fyrirtækinu sem í sjálfu sér getur komið öllum þeirra markaðshugmyndum og framtíðarmöguleikum í miklu erfiðari farveg heldur en ella væri, ef erlendi aðilinn væri t.d. með 49% beina eignaraðild í viðkomandi fyrirtæki.

[18:30]

Ég er aftur á móti alveg sammála öllu því sem sagt er um að fara varlega og í hugsanlegum tilfellum sem þessum þar sem erlendir aðilar í sömu grein hafa virkilegan áhuga á fjárfestingu í sjávarútvegi á Íslandi ætti að setja inn í lögin ákvæði sem heimila viðskrh. að grípa inn í slík mál ef þau kæmu upp og menn sjá fyrir sér óheppilega mikla fjárfestingu. Þess vegna held ég að í allri þessari umræðu höfum við getað sýnt fram á að við erum ekki með neina sýndarmennsku heldur erum við að leggja fram mál í fullri alvöru. Við gerum okkur aftur á móti fyllilega grein fyrir því að það eru ekki endilega miklar líkur á því að lagafrv. okkar verði samþykkt en eigi að síður munum við hafa þessa skoðun á málinu þó að við getum stutt stjfrv.