Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:05:34 (3164)

1996-02-19 19:05:34# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:05]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur hélt kjarnyrta ræðu um málefni dagsins. Ég ætla að tæpa á örfáum atriðum.

Hann orðaði það svo að íslenskur sjávarútvegur þyrfti að vera í súrefniskassa af því að hann væri svo veikburða. Það kemur mjög óvart að heyra slíkt úr munni hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem þekkir vel til. Ég veit ekki betur en þeir frændur sem eiga Samherja norður á Akureyri hafi lýst því yfir í blaðaviðtali að að þeirra dómi væri ekkert því til fyrirstöðu að takast á við samkeppni erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeir tækju varla undir það að þeir þurfi að vera í einhverjum súrefniskassa.

Varðandi það að fiskvinnslan gæti orðið einhver sérkapítuli í þessu öllu og mætti þess vegna vera undir 100% erlendri eignaraðild kemur mér dálítið á óvart. Það hefur verið vaxtarbroddurinn í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum í dag að sameina vinnsluna og útgerðina. Það er fyrst og fremst þetta form sem hefur gengið vel og selst vel á hlutabréfamörkuðum. Ég er því ekki viss um að þessi röksemdafærsla gangi upp í praxís þótt hún hljómi hugsanlega vel í svona umræðu.

Ég er ósammála því að frv. okkar fjórmenninganna í Sjálfstfl. gangi öfugt á stefnu stjórnarinnar. Ég tel að þar sé fyrst og fremst um stigsmun að ræða, hvort það eigi að vera óbein 49% eignaraðild eða 49% bein eignaraðild. Það er alveg ljóst að bein eignaraðild er skilvirkari og mun tryggja að virðisaukinn verður eftir í sjávarútveginum. Það mun hin aðferðin ekki tryggja.

Annað sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram í framhaldi af þessu er það sem ég held reyndar að allir hafi sagt hér. Við verðum að tryggja að auðlindin, fiskstofnarnir séu ávallt tryggðir þannig í lögum að það sé aldrei nein spurning um forræði.