Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:08:10 (3165)

1996-02-19 19:08:10# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:08]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að leggja mitt mat á stöðu íslenskra fyrirtækja. Ég get ekki svarað fyrir aðra og það eru engin rök í málinu þótt einhverjir menn segist í blaðaviðtali hvergi hræddir. Nei, ég held að menn séu ekkert hræddir. En það eru engin rök í málinu, sérstaklega þegar átt er við fyrirtæki sem er ekki einu sinni á markaði. Það er bara lokað. Það er von að þeir séu óhræddir.

Ég veit ekki hvað menn kalla grundvallarmun og hvað menn kalla stigsmun. En í frv. ríkisstjórnarinnar er kveðið skýrt á um að bein fjárfesting sé útlendingum algjörlega óheimil. Í frv. fjórmenninganna, flokksbræðra minna, er talað um 49%. Ef þetta er stigsmunur, þá mega menn kalla það stigsmun. En ég tel þetta grundvallarmun.