Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:15:29 (3170)

1996-02-19 19:15:29# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:15]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki seinni spurningunni. Hvernig sér hann þetta fyrir sér í framkvæmd? Og hvað með hættuna á að það yrði litið á þessi tvö fyrirtæki sem heild? Tökum bara dæmi. Það er fyrirtæki sem bæði gerir út og vinnur fisk eins og mjög mörg fyrirtæki á Íslandi. Þetta fyrirtæki yrði þá að kljúfa sig upp í tvo rekstraraðila, tvö hlutafélög. Í öðru mættu bara Íslendingar eiga, þ.e. í veiðunum. Þeir væru væntanlega sömu aðilarnir og mundu eiga með útlendingum í hinu fyrirtækinu. Það er þetta praktíska mál sem menn hafa oft og tíðum rætt um. Við skulum segja að útlendingurinn ætti í vinnslufyrirtækinu 70--80%. Þetta vinnslufyrirtæki væri sá sem keypti af útgerðinni. Það eru orðin svo náin tengsl á milli að hinn formlegi aðskilnaður þarna á milli er bitamunur en ekki fjár. Herra forseti. Menn hafa gengið í gegnum vandkvæðin með þessa aðgreiningu innan sjávarútvegsins margoft áður. Það kom ekkert nýtt fram í máli hv. þm. varðandi þennan þátt. Ég tek hins vegar alveg undir það að fiskvinnslufyrirtæki er iðnaðarfyrirtæki og ég gæti hvenær sem er farið í langa umræðu um það og m.a. rifjað upp þá tillögu mína að sameina iðnrn. og sjútvrn. Það er annað mál. En hann svaraði ekki þessari einföldu spurningu um hinn raunverulega aðskilnað.