Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:23:46 (3176)

1996-02-19 19:23:46# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:23]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Hryggurinn í málflutningi hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar var skýr, klár og heill. Það má finna kjarnann í hans málflutningi í setningunni sem hv. þm. sagði sjálfur, þ.e. að styrkur sjávarútvegsins er kjarni málsins fyrir Ísland. Um það snýst þetta mál. Það er ekkert nýtt að veiðarnar og verðmæti fari saman. Þetta hefur alltaf fylgst að. Verðmætin og úrvinnslan hafa fylgt ábyrgðinni á fjárfestingunni í flota og fiskvinnslutækjum. Þess vegna er út í hött eins og hefur komið fram í dag hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að verðmætin verði til vegna skömmtunarhlutverksins. Verðmætin eru til þrátt fyrir skömmtunarhlutverkið, þrátt fyrir þröskuldana inn í kerfið sem við búum við, vonandi ekki um alla eilífð. Það er mergurinn málsins. Hitt er röng röð.

Það er áhyggjuefni þegar boðaðar eru falsvonir með veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti. Ég minntist á Morgunblaðið fyrr í dag. Ég er mikill Morgunblaðsmaður og tel Morgunblaðið eina merkustu stofnun landsins. En í þessu efni hefur Morgunblaðinu missést. Það hefur aldrei fært rök fyrir máli sínu þó að ábendingar hafi komið í ritstjórnargreinum blaðsins. Ég segi að það sé áhyggjuefni þegar boðaðar eru falsvonir um veiðileyfaskatt eins og Alþfl. hefur gert og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, vegna þess að það eru ekki neinar forsendur fyrir þeim tekjum sem á að gefa hinum og þessum. Það heyrist í æ meiri mæli að fólk vill fá tekjur af veiðileyfagjaldinu. Þær forsendur eru ekki til. (Gripið fram í: Var þetta ekki andsvar við Einar Odd?) Fólk í þéttbýlinu er farið að heimta tekjur af auðlindaskattinum. Það gengur ekki. Þetta er eins og ... (Gripið fram í.)

(Forseti (ÓE): Það er rétt.)

... gyllivonir Alþfl. í síðustu kosningum, þegar Alþfl. stillti upp í myndum frá Evrópu í auglýsingum sínum, (Gripið fram í: Þetta er yfir strikið.) huggulegu fólki með rauðvínsglas í París, í hestvagni í Grikklandi, í siglingu á Thames í London og í spænskum dansi á Spáni og sagði: Hér er veruleikinn. Hér eigið þið heima, ungu Íslendingar. Þetta eru falsvonir.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir hv. þingmenn á reglur um andsvör.)