Löggilding starfsheita í tækni- og hönnunargreinum

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 13:39:15 (3178)

1996-02-20 13:39:15# 120. lþ. 93.4 fundur 102. mál: #A löggilding starfsheita í tækni- og hönnunargreinum# (heildarlög) frv. 8/1996, Frsm. GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:39]

Frsm. iðnn. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnn. á þskj. 563 um frv. til laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, og Hörð Lárusson, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Arkitektafélagi Íslands, Félagi skipulagsfræðinga, Stéttarfélagi verkfræðinga, Tæknifræðingafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands, auk þess sem nefndin hafði til skoðunar umsagnir frá 118. þingi.

Ein meginástæða fyrir flutningi þessa frumvarps er að breyta þarf núgildandi löggjöf vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af EES-samningnum. Einnig munu með samþykkt frumvarpsins gilda samræmdar reglur, í einum og sama lagabálki, um hver hafi rétt til að nota starfsheiti sem falla undir svið iðnaðarráðuneytisins, þar sem því er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, og lög nr. 46/1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir því að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögfest. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.