Landflutningasjóður

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 13:45:50 (3181)

1996-02-20 13:45:50# 120. lþ. 93.7 fundur 317. mál: #A landflutningasjóður# (hlutverk) frv. 23/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:45]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Landflutningasjóður var stofnaður árið 1979 og var tilgangur hans að veita stofnlán til kaupa á vöruflutningabifreiðum til að annast vöruflutninga á langleiðum og fyrir dreifbýli. Höfuðstóll sjóðsins var um 15 millj. kr., myndaður með 1% gjaldi sem til féll á árunum frá 1980--1984 af aðstöðugjaldsstofni félagsmanna Landvara, landsfélags vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum. Í lögum um sjóðinn er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs yrði jafnhátt og gjald Landvaramanna en það hefur ekki gengið eftir.

Landvari fór þess á leit við samgrn. á sl. ári að sjóðurinn yrði lagður niður og eignir hans afhentar Landvara og var við því orðið af hálfu ríkisstjórnarinnar og lagt til að sjóðurinn fengi nýtt hlutverk til að styrkja stöðu atvinnugreinarinnar, eða eins og segir í 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir:

,,Hlutverk landflutningasjóðs er að stuðla að uppbyggingu og framþróun í vöruflutningum á landi. Í þeim tilgangi skulu veittir styrkir til verkefna sem lúta að fræðslu um flutningastarfsemi, svo sem rekstur flutningafyrirtækja, vörumeðferð, neytendavernd og markaðsmál.``

Gert er ráð fyrir að samgrh. skipi þrjá menn í stjórn sjóðsins, þar af einn samkvæmt tilnefningu Landvara, félags ísl. vöruflytjenda.

Um þetta er í rauninni ekki fleira að segja. Þetta frv. er unnið í samvinnu við stjórn Landvara og ég hygg að fjármunum sjóðsins sé vel varið eins og hér er lagt til og legg til að frv. verði vísað til hv. samgn. og 2. umr.