Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:13:50 (3184)

1996-02-20 14:13:50# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að koma með þetta mál hér inn í þingið því ég hef lengi talið það vera brýnt verkefni að vinna færi af stað við að gera úttekt á því, flytja félagsleg verkefni og ýmis önnur verkefni milli ráðuneyta, úr heilbrrn. og yfir í félmrn. Hv. þm. hefur farið vel yfir ýmsa þætti þessa máls og sýnt fram á að bæði gæti orðið sparnaður og hagræði við þennan flutning en mig langar til að nefna nokkur atriði í viðbót sem rökstyðja að það er mikilvægt að farið verði í þessa vinnu.

Hv. þm. nefndi málefni aldraðra en varðandi þjónustu við aldraða hafa víða verið óljós skil milli þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á í velferðarkerfinu. Hún nefndi heimaþjónustu aldraðra sem að hluta til er veitt af heilsugæslustöðvunum og flokkast undir heilbrigðismál og síðan er félagsleg þjónusta við aldraða eins og heimaþjónusta sem er á vegum sveitarfélaganna og er félagslegt mál.

Reynslan hefur sýnt að það er erfitt að samræma þjónustuna þegar hún er á margra hendi, þegar hluti af henni er undir heilbrrn. og hluti af henni er undir félmrn. Það gerir það líka að verkum að oft er þjónustan mun dýrari fyrir hið opinbera og ekki eins góð fyrir þann sem þarf að njóta hennar.

Það má líka nefna málefni fatlaðra. Þeir sem ekki geta unnið sér til framfærslu þurfa að sækja framfærslu sína til tryggingakerfisins, til almannatrygginganna, ýmsan stuðning til félagsþjónustunnar og síðan er hluti af atvinnumálum fatlaðra aftur undir tryggingakerfinu sem eru vinnusamningar fyrir fatlaða. Ég hef verið á þeirri skoðun og tel að þessi nefnd ætti að athuga það að flytja hluta af tryggingakerfinu undir félmrn.

Á Norðurlöndum, þar sem menn búa við líkt velferðarkerfi og hér á landi, er mjög stór hluti af tryggingakerfinu, sérstaklega lífeyrismálin, undir félagsmálaráðuneytum þeirra landa og hefur gefist mjög vel. Og eftir því sem ég hef skoðað þetta betur er ég sannfærðari um að það muni koma hagkvæmar út fyrir okkur, bæði fyrir þá sem þurfa á tryggingakerfinu að halda og hið opinbera, að tryggingamálin heyrðu undir félmrn.

Önnur rök í því eru líka þau að heilbrrn. er mjög stórt og viðamikið ráðuneyti og þungt í vöfum og það gæti létt vinnuna í heilbrrn. að tryggingamálin færu undir félmrn.

Annað, sem kom reyndar skýrt fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, er að víða hafa stofnanir fest í stjórnsýslunni án þess að hugað væri að breyttum lögum, nútímaviðhorfum, og því að það þyrfti að endurskoða starfsemi þeirra og staðsetningu í kerfinu. Í því tilviki vil ég leggja áherslu á það að öll velferðarþjónustan þarf að vera í sífelldri endurskoðun. Við þurfum að skoða velferðarþjónustuna í takt við breytta tíma. Af því að hér hefur verið minnst á ódýrari þjónustu og hagkvæmari þá vildi ég nefna hugmynd sem landlæknir hefur haldið nokkuð á lofti varðandi sparnað í heilbrigðiskerfinu og það eru svokölluð sjúkrahótel sem ég tel að þyrfti að koma á laggirnar því það hefur sýnt sig að þar sem sjúkrahótel hafa verið tekin upp í tengslum við sjúkrahús hefur það sparað stórlega í sjúkrahúsrekstri.

Við þurfum að finna ódýrari úrræði. Við vitum að velferðarþjónustan þenst út og við verðum að gæta hagkvæmni án þess að það bitni á þeim sem þurfa að treysta á velferðarþjónustuna. Því vil ég leggja áherslu á það að þessi þáltill. verði samþykkt og fái farsæla meðhöndlun í allshn. Ég tel mikilvægt að farið verði í þá vinnu sem hér er lögð til, að settur verði á laggirnar starfshópur sem skoði þau atriði sem nefnd eru í greinargerðinni auk þess að skoða hvort ekki væri full ástæða til að flytja tryggingakerfið yfir í félmrn., a.m.k. hluta þess. Einnig teldi ég fulla ástæðu til að hópurinn skoðaði hvernig þessum málum er fyrir komið í nágrannalöndum okkar og þá sérstaklega á Norðurlöndum.