Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:35:44 (3187)

1996-02-20 14:35:44# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:35]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna frumkvæði hv. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Hér hreyfir hún máli sem mjög brýnt er að Alþingi ræði og gaumgæfi til hlítar.

Það er að sönnu fyrirliggjandi að það er ekkert sjálfsagt og rétt þegar kemur að þeim álitamálum sem hér er drepið á. Raunar ekki heldur þótt umræðuefnið sé aðeins útvíkkað og menn ræði vítt og breitt um hlutverkaskiptingu og verkefnaskiptingu í Stjórnarráðinu í heild. Þrátt fyrir það að kerfið í eðli sínu sé býsna íhaldssamt og að breytingar á verkefnum ráðuneyta gangi hægt fyrir sig og séu fremur undantekning en regla, þá hefur þrátt fyrir allt eilítið mjakast í rétta átt eða a.m.k. í þá átt sem veruleikinn hefur kallað á á liðnum missirum og árum.

Hér hafa menn staldrað til að mynda við tryggingamálin. Það er rétt að vekja á því sérstaka athygli að Atvinnuleysistryggingasjóður varð til skamms tíma vistaður einmitt í heilbrrn. og það var ekki fyrr en á síðasta kjörtímbili, og raunar í tíð undirritaðs sem heilbrrh., sem hann fluttist inn í félmrn. og það var tiltölulega góð sátt um þann tilflutning. Á sama hátt var það síðla á síðasta kjörtímabili sem hin almennu tryggingamál fluttust úr heilbrrn. í viðskrn. Þá vil ég einnig nefna það að Hollustuverndin fór úr því sama ráðuneyti yfir í umhvrn. þannig að stórir og mikilvægir málaflokkar hafa verið á ferðinni frá þessu stóra ráðuneyti sem heilbrrn. er og yfir í önnur ráðuneyti, í annarra hendur. Og í þeim þremur tilvikum sem ég hef tilgreint hér hefur verið tiltölulega góð sátt og eining.

Þingmenn hafa staldrað eilítið við það, sem vissulega er rétt, að gjarnan er það svo þegar kemur að tilflutningi tiltekinna afmarkaðra verkefna frá einu ráðuneyti til annars, sérstaklega á þessum sviðum, að í tengslum við fjárlagagerð þá rjúki forsvarsmenn viðkomandi stofnana, þau hagsmunasamtök sem hlut eiga að máli, upp til handa og fóta og mótmæli harðlega og eiga sér þá oftar en ekki dygga stuðningsmenn hér á hinu háa Alþingi sem fara mikinn og mótmæla harðlega. Ég held að það sé rétt að halda því til haga, virðulegi forseti, að ég hef haft af því vissan ótta að þótt við séum ekki beinlínis í fjárlagagerð, þá megi ætla að svipaður söngur upphefjist þegar menn koma með ígrundaðar en vissulega umdeildar tillögur um hvar skuli vista hinar einstöku stofnanir, undir hvaða ráðuneyti. Með öðrum orðum sé ég ekki að mál séu hólpin þó að við forðum þeim undan hinum óbeinum tengslum við fjárlagagerð og fjármálaleg umsvif því að auðvitað verður ekki hjá því komist að skoða þann þátt líka. Það er bara þannig.

Hér var komið inn á hugmyndir um tilflutning Gunnarsholts yfir á félagsmálasviðið, bæði til félmrn. og til sveitarfélaga, sem allir eru sammála um að eigi þar heima. Menn nefndu leikskólamálin og það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði tvo hv. ræðumenn hér, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur annars vegar og hv. þm. Svavar Gestsson hins vegar rifja upp leikskólamál og Gunnarsholtsmál að ef mig brestur ekki minni, þá er eins og það vomi einhvers staðar yfir að þau hafi talað mjög hart gegn þeim tilflutningi á sínum tíma. En batnandi manni er best að lifa, eins og einhvers staðar segir, virðulegi forseti, þannig að ég fagna því að menn geti horft á þau mál með kannski eilítið meiri viðsýni nú í upphafi árs 1996 en var á þeim tíma í lok árs 1993. --- En þetta var raunar útúrdúr. Meginatriðið er það að ég held að við eigum að horfa á þessi mál hleypidómalaust og hreinlega á verkefnin eins og þau koma fyrir. Það er hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að samanburður við aðrar þjóðir er að mörgu leyti skakkur vegna þess að heilbrigðisþátturinn er þyngri og veigameiri hér en víðast hvar annars staðar, en aftur á móti félagsmálaþátturinn mun léttari og veigaminni en gengur og gerist hjá okkar nágrannalöndum. Þannig verða hliðstæður og samanburður ótrúverðugur með köflum.

Ég held hins vegar að hjá því verði ekki komist að taka undir að sá þáttur sem hér er staldrað við er náttúrlega liður í langtum stærra máli, nefnilega því að endurmeta og endurskoða verkaskiptingu í Stjórnarráðinu í heild og breidd. Ég nefndi það áðan að íhaldssemin væri tiltölulega rík hjá okkur mörgum þingmönnum. Hjá okkur er hátíð ein þegar kemur að þeim veruleika sem við blasir í kerfinu sjálfu, þ.e. hjá forsvarsmönnum þeirra stofnana sem hugsanlega eiga að flytjast frá einu ráðuneyti til annars, janfvel hjá embættismönnum þeirra ráðuneyta sem um málið véla frá einum tíma til annars þannig að það er létt um málið að tala en kannski erfiðara því að þoka. Þetta þekkjum við talsvert af eigin raun og þess vegna held ég að hv. þingmenn þurfi að hafa röskar hendur og dálítið kraftmikið verklag til þess að mjaka þessum málum í rétta átt. Ég minni á að það eru gjarnan þessir sömu embættismenn sem hafa verið að vinna að endurmati og endurskoðun á ýmsum þáttum Stjórnarráðsins, bæði hugsanlegum verkefnatilflutningi, einnig á réttindamálum þar innan dyra. Ég nefni í þessu sambandi æviráðninguna, ég nefni hugmyndir, sem eru mjög réttmætar að mínu áliti, um að flytja æðstu stjórnendur ráðuneyta milli ráðuneyta með reglulegu millibili og svo mætti lengi telja. Þessi mál voru komin á talsvert góðan rekspöl fyrir ekki mörgum árum, en fóru síðan í lægð á nýjan leik. Kannski var um að kenna því að þeir menn sem lögðu til efnið í þessar hugmyndir á þeim tíma áttu hagsmuna að gæta sjálfir. Og svo kannski hitt að við hv. þm., ef við lítum aðeins með gagnrýnum huga á eigin störf og stefnumið, erum kannski líka allt of íhaldssamir þegar að þessu kemur.

Ég árétta það, virðulegi forseti, að lokum að hér er hreyft mjög þörfu máli og skora á hv. þm. sem um þessi mál munu fjalla í nefnd að láta einskis ófreistað að vinna að því rösklega og láta engan stein óhreyfðan í þessu sambandi. Hv. flm. nefndi til sögunnar ýmsar hugmyndir í þessa veru. Aðrir ræðumenn hafa gert það sömuleiðis. Sumar eru betri en aðrar að mínu áliti og þannig er það og verður í umræðunni, en engu að síður á umræðan fullan rétt á sér og ég vona svo sannarlega að hún verði meira en almennt tal, heldur leiði hún af sér nauðsynlegar og réttmætar breytingar.