Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:46:03 (3189)

1996-02-20 14:46:03# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurvekja hér umræður sem áttu sér stað fyrir rétt rúmum tveimur árum, heldur hitt að vera bæði sammála og ósammála hv. ræðumanni. Í fyrsta lagi er ég henni sammála um það að núverandi borgarstjórnarmeirihluti er mjög áfram um það að leysa úr þeim vanda sem var vissulega fyrir hendi og er að sumu leyti enn hvað varðar dagvistarrými eða leikskólarými fyrir börn. Hinu er ég fullkomlega ósammála að nokkru sinni hafi staðið til að blessuðum börnunum á leikskólum sjúkrahúsanna hafi verið ætlað að eiga sér athvarf úti á gaddinum, enda var það ekki svo.

Ég vil hins vegar rifja upp, af því að hávaðinn var mikill á sínum tíma og minna fór fyrir þeim niðurstöðum sem urðu í málinu, að nýverið lagði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fram fyrirspurn um hver hefði verið hin fjárhagslega framþróun þessara mála. Þá kom í ljós að sparnaður Ríkisspítalanna vegna þeirra aðgerða sem gripið var til, þrátt fyrir allan hávaðann og þrátt fyrir öll mótmælin, hefur leitt til sparnaðar á Ríkisspítölunum upp á hátt í 200 millj. kr., ef ég man rétt, og það án þess að nokkru barni hafi verið úthýst þannig að stundum er það svo að þegar rykið sest og menn sjá í kringum sig, þá eru mál að mjakast í rétta átt. Það er verið að spara peninga án þess að draga úr þjónustu og þannig unnum við alþýðuflokksmenn á síðasta kjörtímabili, virðulegi forseti, og þannig er okkar aðhald í stjórnarandstöðu gagnvart aðgerðum núv. ríkisstjórnar. Við viljum sem sagt sjá í gegnum þokumökkinn sem stundum umlykur marga umræðuna.