Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:50:58 (3192)

1996-02-20 14:50:58# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:50]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég verð að láta þau orð falla um orðaskipti þeirra hv. þm. sem hér tókust á í andsvörum og svörum að ef maður á að draga saman þessi orðaskipti þeirra, vinsamleg og áhugaverð í eina setningu, þá mundi ég hafa hana svona: Það skiptir máli hverjir stjórna.

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið afskaplega áhugaverð og jákvæð og ég vil þakka þær undirtektir sem tillaga sú sem ég mælti fyrir hefur fengið. Ég verð strax bjartsýn á að hún eigi möguleika á að fá stuðning og framgang í þinginu vegna þeirra viðhorfa sem hér hafa komið fram. Auðvitað tek ég undir það að full ástæða er til að skoða stjórnsýsluna sem slíka í víðara samhengi en því sem þessi tillaga sem ég hef flutt fjallar um. Það er hægt að gera óháð þessari tillögu og það er stærra mál og má vænta þess að það verði síðar, hvort sem það verður framhald af slíkri vinnu ef hún fer í gang sem ég hef lagt til.

Mig langar að nefna það að árið 1988 var farið í talsvert mikla endurskoðun félagslegra stofnana, sérstaklega stofnana fatlaðra, af þáv. félmrh. Það voru uppi ýmis áform um að breyta þeim stofnunum og þróa í aðrar áttir, sambýli og annað slíkt. Reyndin varð sú að það var eiginlega eingöngu Sólborg á Akureyri sem ákvað að gera breytingar eða í raun og veru að leggja sjálfa sig niður. Ég er alveg viss um að á þeim tíma sem ég tók þátt í þeirri umræðu, 1988, hefði enginn séð það fyrir þá að á árinu 1996 væru þau húsakynni orðin til ráðstöfunar Háskólanum á Akureyri. En þannig er það að stofnanir eru börn síns tíma og síðan breytast bæði viðhorf og kröfur og sem betur fer má oft þróa mál þannig að til hagsbóta er fyrir marga aðila.

Það er mikilvægt að skoða þessi mál. Það er alveg ljóst að við yfirferð þeirra yrði niðurstaðan sú að einhver þeirra yrðu flutt til sveitarfélaganna, það er trú mín, þó að fyrst og fremst geri ég tillögu um það að ákveðin tilgreind verkefni séu skoðuð vegna þess að ég þekki til þess að mörg þeirra eiga heima hjá félmrn. Það er brýnt að taka á þessum málum strax og fyrir fram einmitt vegna þess að við erum að upplifa það aftur og aftur að tillögur eru um að leggja stofnanir niður án þess að nokkur áform séu uppi um hvernig eigi að huga að því fólki sem þar býr.

Ég hef lagt til, virðulegi forseti, að það verði sett nefnd í málið og að þingmenn komi að því nefndarstarfi sökum þekkingar þeirra á löggjöf. Þessi nefnd, ef af verður, fer væntanlega vel ofan í málin og þá tel ég að allt sé opið. Þó að ég hafi tekið ákveðin dæmi af ákveðnum tilgreindum stofnunum, þá hef ég ekki gert tillögu um að flytja ákveðnar stofnanir frá heilbrrn. til félmrn. sem ég hefði gert ef ég hefði sjálf verið búin að skoða þau mál og talið það nægilegt, en tillagan er um að þessi mál verði skoðuð og síðan gerðar lagabreytingar og áætlun um tilflutning. Ástæðan fyrir því að ég hef tekið dæmi um þessar sérstöku stofnanir er hreinlega sú að í því ástandi sem ríkir í dag er ég hrædd um þær.

Ég þakka þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram og stuðning við það mál sem ég hef flutt.