Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:16:04 (3197)

1996-02-20 15:16:04# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna því ef ríkisstjórnin hyggst hafa samráð við samtök launafólks í framhaldi þeirrar vinnu sem til stendur varðandi samskipti á vinnumarkaði. Því er hins vegar ekki að leyna að samskipti launafólks og atvinnurekenda hafa verið með afar sérkennilegum hætti hér á landi. Verkföll, vinnudeilur og átök af ýmsu tagi ásamt málaferlum eru hér mun algengari en gerist í öðrum Evrópuríkjum. Það er ekki auðvelt að skýra hvernig á þessu stendur en ég hygg þó að einhliða aðgerðir ríkisvaldsins, t.d. í efnahags- og skattamálum, svo árum skiptir hafi leitt til þess að á hverju einasta ári blikka viðvörunarljósin þannig að bæði samtök launafólks og atvinnurekendur setja sig í varnarstellingar. Önnur skýring er sú sérkennilega hagfræði sem tröllríður vinnumarkaðnum þess efnis að allt eigi að vera háð frjálsri samkeppni og markaðslögmálum nema launin. Þegar kemur að launasamningum skal allt niðurnjörvað í fyrir fram ákveðna goggunarröð sem m.a. felur í sér óþolandi launamisrétti kynjanna og láglaunastefnu sem nú er að koma í bakið á okkur öllum, atvinnurekendum og þjóðfélaginu öllu. Öll samtök launafólks eru þvinguð undir launastefnu sem ýmist er kennd við þjóðarsátt eða jafnlaunastefnu en hefur ekki leitt af sér annað í launakjörum en sívaxandi launabil, feluleik og óánægju sem stórlega hefur skaðað vinnuanda í samfélaginu ekki síst meðal opinberra starfsmanna. Afleiðingin er launakerfi sem byggist á yfirvinnu og aukagreiðslum enda gefur auga leið að launaþátturinn er ekki óháður framboði og eftirspurn þó ýmsir virðist halda það.

Hæstv. forseti. Það þarf margt að endurskoða í löggjöf og í samskiptum launafólks og atvinnurekenda, ekki síst að virða samningsfrelsi og eðlilega launaþróun í samræmi við þann alþjóðlega vinnumarkað sem við erum orðin hluti af. Þau frv. sem nú eru til umræðu og umfjöllunar úti í samfélaginu einkennast af miðstýringu og breytingu á félagslegum réttindum sem geta ekki annað en kallað á gífurleg átök á vinnumarkaði. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég er alveg ljúka máli mínu og vil enda með því að segja það að við vitum öll að við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda en hann verður ekki leystur nema þar eigi í hlut samvinna sem byggist á eðlilegum samskiptum ríkisvaldsins, vinnuveitenda og samtaka launafólks.