Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:18:33 (3198)

1996-02-20 15:18:33# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:18]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Mér sýnist að í uppsiglingu sé alvarleg deila á vinnumarkaðnum og atlaga að réttindum og kjörum fólks, kannski sú mesta sem við höfum séð í áratugi. Þó þessi frv. hafi ekki komið fyrir þingið þá er ljóst af þeim hugmyndum sem fram hafa komið í fjölmiðlum um þetta mál að hér er verið að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði og þrengja að réttindum fólks og jafnvel á að gera það í andstöðu við launafólk ef marka má það sem komið hefur fram. Auðvitað verður ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir því að þetta mun leiða til stríðsástands á vinnumarkaðnum.

Hæstv. vinnumálaráðherra hefur látið það frá sér fara í fjölmiðlum og ætlar greinilega að keyra svo hart og beitir raunverulega svipunni áður en málin eru komin hér til meðferðar í þinginu að hann segir að hann ætli ekki að láta berja sig til baka með þessi mál og ætlar greinilega að koma með þau inn í þingið þó það sé í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í.) Hæstv. ríkisstjórn verður að vita að það er alveg ljóst að það mun ekki ganga hljóðalaust fyrir sig í þessari virðulegu stofnun ef það á að gerast með þessum hætti. Og hvaðan koma þessar hugmyndir? Þetta er sameiginlegt áhugamál Vinnuveitendasambandsins og fjmrn. og fjmrh. Þetta eru tillögur sem ganga undir einhverju sem kallast hreyfanleiki á vinnumarkaði, sveigjanleiki í launum og skerðing á réttindum og bótakerfi fólks.

Á hverju byggist raunverulega samkeppnishæfni atvinnulífsins núna? Hún byggist á lágum launum fólksins í landinu þar sem verulegur hluti þess er niðurgreiddur af hinu opinbera og það er spurning hvort ríkisstjórnin hafi þessa framtíðarsýn varðandi kjör fólksins í landinu og hvort ríkisstjórnin ætlar að verðlauna launafólkið í landinu með þessum hætti sem hefur tryggt stöðugleikann og betri stöðu atvinnulífsins á undanförnum árum með því að búa við skerðingu á launum sínum og sífelldum árásum á velferðarkerfið. Og það sem gerir ástandið, virðulegi forseti, enn verra er staðan í stjórnmálum og á vinnumarkaði. Við höfum hér ríkisstjórn sem vissulega er málefnasnauð (Forseti hringir.) en hún hefur litla framtíðarsýn og síðan erum við með miðstýrt vinnuveitendavald. Verkalýðshreyfingin á bara eitt svar við þessu: Að verkalýðshreyfingin og launafólkið í landinu þjappi sér saman en vissulega þarf verkalýðshreyfingin líka að skoða sitt innra skipulag vegna þess að þar er ákveðin kreppa á ferðinni sem varað hefur í 40 ár, að hún hefur ekki getað tekið á sínu innra skipulagi.