Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:21:14 (3199)

1996-02-20 15:21:14# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er tilbreyting að heyra í hæstv. forsrh. í þingsal. Forsrh. í ríkisstjórn sem hefur þá yfirlýstu stefnu að gera grundvallarbreytingar á skipulagi og samskiptareglum í þjóðfélaginu. Forsrh. í ríkisstjórn sem núna er að byrja að taka til hendinni. Látið er í veðri vaka að þetta skuli gert í samráði og sátt. Raunveruleikinn er hins vegar sá að þessa dagana er verið að kynna samtökum launafólks lagafrumvörp sem varða samningsrétt stéttarfélaga og einnig lögbundin kjör og réttindi og þau skilaboð látin fylgja að frv. þessi verði lögð fram á þingi innan fárra daga. Samkvæmt þessum frumvarpsdrögum á að afnema í einu vetfangi ýmis grundvallarréttindi sem hafa verið forsenda í kjarasamningum um langt skeið, já, um langt skeið. Nú er það orðin ein röksemdin fyrir því að það þurfi að breyta þessum lögum. Hæstv. forsrh., það sem er gamalt getur verið gott.

Ég hef áhyggjur af því alvöruleysi sem einkennir þessa umræðu, eða skyldi það vera þekkingarskortur? Ég vona að það sé þekkingarskortur því úr honum er hægt að bæta. En ég ætla að vona að ríkisstjórninni takist ekki að slá ryki í augu fólks því það sem hér er verið að boða í þeim frumvarpsdrögum sem kynnt hafa verið er stórfelld réttindaskerðing, réttindi sem hefur verið samið um í kjarasamningum og í kjölfarið fest í lög. Og hæstv. forsrh. til upplýsingar þá er það rétt að margir fundir hafa verið haldnir í þeirri nefnd sem vitnað er til um samskiptareglur á vinnumarkaði en verkalýðshreyfingin hefur komist að niðurstöðu í því máli og lagt fram sínar tillögur sem okkur er sagt að nú eigi að hunsa. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Þau viðbrögð sem fram hafa komið innan samtaka launafólks nú síðustu daga eftir að þessi umræða hófst sýna svo ekki verður um villst að dragi ríkisstjórnin ekki þessi vanhugsuðu frumvarpsdrög til baka þá er verið að blása til óvinafagnaðar. (Forseti hringir.) Ef hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni er umhugað um að sátt ríki í þjóðfélaginu þá gefur hann út yfirlýsingu hér og nú um að öll þessi frumvarpsdrög verði tafarlaust dregin til baka. (Forseti hringir.) Í framhaldi er eðlilegt að fulltrúar launafólks setjist niður við autt borð með ríkisvaldi og viðsemjendum sínum og hefji viðræður um samskipti þessara aðila sem nú er stefnt í voða.

(Forseti (ÓE): Það er mikið tillitsleysi sem hv. ræðumenn sýna samþingsmönnum sínum því það er ekki hægt að gefa orðið þeim sem síðastir eru á mælendaskránni fyrir utan náttúrlega málshefjanda og hæstv. forsrh. ef allir fara fram úr tímanum og það hafa allir gert.)