Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:31:37 (3203)

1996-02-20 15:31:37# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Eins og öllum er ljóst hafa ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar haft mikil samráð við verkalýðshreyfinguna og aðra aðila á vinnumarkaði. Þetta hefur best sést þegar verið er að leysa kjarasamninga og einnig með þátttöku þessara aðila í nefndum sem fjallað hafa um ýmis málefni og sérstaklega þó skattamál. Varðandi tvö frv. sem eru til skoðunar nú hjá ríkisstjórninni, og annað varðar lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna og hitt um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, hefur verið haft samráð við samtök opinberra starfsmanna um þau mál enda komu þau inn í umræðuna frá okkar samráðsaðilum.

Í sambandi við lagafrv. um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna þá felur það frv. ekki í sér skerðingu á heildarréttindum opinberra starfsmanna. (ÖJ: Þetta er ósatt.) Mér er alveg sama hvað formaður BSRB segir, það sem felst í frv. eru tilfærslur á réttindum en þegar á heildina er litið þá er ekki um að ræða skerðingu á réttindum opinberra starfsmanna.

Í öðru lagi, og það varðar frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þá er þar ekki gert ráð fyrir að réttindi starfsmanna sem samið hefur verið um í kjarasamningum breytist. Það er ekki snert á þeim. Og það er ekki heldur gert ráð fyrir því að réttindi þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið fyrir gildistöku laganna breytist að öðru leyti en því sem snýr að biðlaunaréttinum. Við viljum afnema æviráðninguna og það eru sífellt færri sem eru æviráðnir. Við viljum líka breyta biðlaunaréttinum og koma í veg fyrir að fólk sé á tvöföldum launum sex til tólf mánuði. (ÖJ: Hvað um veikindaréttinn? Starfsréttinn? Samningsréttinn?) Ef ég fæ frið fyrir æstum þingmanninum sem situr hér og hefur nægan tíma til að tala við mig annars staðar um þessi mál og við getum gert það og ég vil gjarnan eiga viðtal við hann um þau, þá skal ég segja það hér í lokin að þessi lög eru 40 ára gömul. Þeim þarf að breyta og það ætlum við okkur að gera enda voru lögin sett þegar opinberir starfsmenn höfðu hvorki verkfalls- né samningsrétt. (Forseti hringir.) Ef menn þurfa heldur lengri tíma til að spjalla saman er ég að sjálfsögðu tilbúinn til þess fyrir mitt leyti að nota svo sem eins og hálfan mánuð í viðbót við þann hálfa mánuð sem nú hefur gefist til að ræða við opinbera starfsmenn í trausti þess að hægt sé að ná viðunandi samkomulagi um þessi mál.