Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:36:26 (3206)

1996-02-20 15:36:26# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:36]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í hvaða heimi lifi ég? Heimi raunveruleikans. Í þeim heimi sem við blasir ef við förum rétt út fyrir dyrnar (EOK: Nefndu dæmi um þetta.) og skoðum hvernig launþegar landsins hafa það. (EOK: Nefndu dæmi.) Það á enn að skerða kjör þeirra með frv. sem boðað hefur verið að lögð verði fram. Þau eru ekki sýnileg, við höfum ekki séð þau, þau eru ekki hér. En við erum fullkomlega læs. Það er búið að fjalla um þau í dagblöðum, það er búið að fjalla um þau í ályktunum ASÍ og BSRB en hæstv. ríkisstjórn les kannski ekki slíkar ályktanir. Það er kannski þannig.

Auðvitað er það rétt að það á að miða frv. og lög, lagasmíð, við raunveruleikann, við það þjóðfélag sem við búum í og hæstv. forsrh. nefndi það þannig að við ættum að taka mið af þjóðfélaginu í dag og þeim tíðaranda sem nú ríkir. Ég spyr: Er það þjóðfélagið sem launþegar vilja sjá, er það tíðarandinn sem launþegar vilja sjá ríkja hér á landi eða er það þjóðfélagið sem hæstv. ríkisstjórn vill sjá og allar hennar gerðir hafa beinst að að breyta þessu þjóðfélagi? Er það sá tíðarandi sem þessi ríkisstjórn vill að hér ríki? Ég vil sjá þjóðfélag vinsamlegt launþegum landsins. Og þess vegna segi ég: Ef ekki er haft samráð við þá um kaup þeirra, kjör og réttindi, þá er illa komið fyrir okkur öllum og vonandi ekki síst fyrir þessari ríkisstjórn, að henni verði hegnt fyrir það þegar sá tími kemur.