Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:38:13 (3207)

1996-02-20 15:38:13# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hafi verið til gagns því að það hefur margt komið fram hér sem sýnir að það var umræða í gangi í þjóðfélaginu um hluti sem ekki var stoð fyrir nokkurs staðar. Það hefur upplýst hér. Það hefur líka komið fram hjá mörgum þingmönnum sem hafa gagnrýnt eitt og annað að þeir telji engu að síður að margt þurfi að endurskoða í þeim verklagsreglum sem um kjaramál og umræður á vinnumarkaði gilda. Þannig að mér sýnist að það sé nokkur samhljómur í því hér í þinginu.

Það sem eftir þessa umræðu stendur er þetta: Það hefur verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna. Slíkt samráð stendur yfir núna og verður áfram. Það hefur líka komið fram, vegna þess sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spurði um sérstaklega og var ágætt hjá honum, að það stendur ekki til að skerða lífeyrisréttindi afturvirkt. Það stendur ekki til. Það er þýðingarmikið fyrir fólk að það liggi fyrir. (ÖJ: Þetta er mikilvæg yfirlýsing.) Það liggur fyrir eftir þessa umræðu. Það stendur ekki til.

Ég hygg að það standi líka eftir þessa umræðu að þegar menn horfa til frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þá liggi það fyrir að menn eru ekki að breyta hér hlutum sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Menn eru heldur ekki að horfa til afturvirkra þátta nema að því leyti sem tengist biðlaunaréttinum vegna þess dóms sem féll á sínum tíma um tengingar biðlauna með tvöföldum hætti. Það er ekki verið að breyta öðrum þáttum heldur en þeim.

Það eru hins vegar aðrir þættir sem ég held að þingmenn sjálfir hljóti að vilja styðja. Eru þingmenn hér inni þeirrar skoðunar að það eigi almennt að vera í gildi æviráðning hjá embættismönnum ríkisins? (Gripið fram í: Nei.) Nei. Það er verið að breyta því. Menn eru að leggja til breytingar að því. Vilja menn láta henda slíkum drögum þar sem verið er að breyta slíkum hlutum? Auðvitað vilja menn ekki láta henda slíkum drögum. Þannig er með það verk sem hæstv. félmrh. er að láta vinna að það er verið að bæta og styrkja leikreglurnar og það er verið að auka réttindi hins einstaka launþega og það er aldrei neitt vald fært frá verkalýðshreyfingunni til atvinnurekenda eða ríkisins. Að svo miklu leyti sem forusta verkalýðshreyfingarinnar missir eitthvert vald þá er það fært til launþegans sjálfs. Við hljótum öll að fylgja því.