Tækifæri kvenna til starfsframa í utanríkisþjónustunni

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:36:12 (3209)

1996-02-21 13:36:12# 120. lþ. 94.1 fundur 287. mál: #A tækifæri kvenna til starfsframa í utanríkisþjónustunni# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mun hér tíunda fyrst og fremst þær staðreyndir sem liggja fyrir um þátttöku kvenna í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Samkvæmt framkvæmdaáætlun sem hér hefur verið vitnað til hafa reglur um aukastarfsframa flutningsskyldra ritara í utanríkisþjónustunni verið í fullu gildi. Þegar tilgreind framkvæmdaáætlun var samþykkt í maí 1993 höfðu þrír flutningsskyldir ritarar öðlast diplómatískt starfsheiti samkvæmt þessum reglum en eru nú átta. Ráðuneytið mun fylgja þessum reglum eftir áfram. Ráðuneytið hefur enn fremur beitt sér fyrir starfsframa kvenna í hópi diplómatískra embættismanna og þannig hafa þrjár konur gegnt starfi varamanns sendiherra frá 1993 en ein að auki þá þegar skipuð sendiherra eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda.

Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að konur í þessum hópi gegni æðri stjórnunarstöðum í ráðuneytinu sjálfu og má í þeim efnum nefna að þann fyrsta þessa mánaðar tók kona við starfi prótókollsstjóra utanrrn. en það er fyrrnefndur sendiherra. Þeirri stöðu gegna jafnan sendiherrar og staðan er ein af æðri sendiherrastöðum í utanríkisþjónustunni hér á landi líkt og hjá öðrum þjóðum.

Það er rétt að geta þessu til viðbótar að að því er varðar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking 4.--15. sept. 1995 voru að sjálfsögðu málefni kvenna ofarlega á baugi og af hálfu utanrrn. var skipuð undirbúningsnefnd haustið 1993 til að sinna þessu verkefni. Var nefndin síðan stækkuð í október 1994 en þá réð utanrrn. konu í fullt starf til að sinna þessu verkefni. Fjöldi annarra kvenna kom að undirbúningi ráðstefnunnar með mjög góðum árangri og þess var gætt að halda góðu samstarfi við önnur ráðuneyti og félagasamtök sem málið varðar. Jafnframt réðst utanrrn. í útgáfu bæklings með alþjóðlegum samþyktum sem varða mannréttindi kvenna og skýrslu íslenskra stjórnvalda um réttindi og stöðu þeirra. Eftir ráðstefnuna stóð ráðuneytið ásamt Jafnréttisráði og Skrifstofu Norðurlandamála fyrir fjölmennum samráðsfundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og það var mál allra sem að þessum fundi stóðu og sóttu hann að hann hafi skilað niðurstöðum þessarar mikilvægu ráðstefnu áleiðis.

Í júní á þessu ári verður haldin önnur mikilvæg ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um byggðaþróun. Utanrrn. hefur ráðið konu, sem áður vann að undirbúningi ráðstefnunnar í Peking, til að halda utan um undirbúningsvinnu af hálfu ráðuneytisins.

Ég vil að lokum taka fram og ítreka að utanrrn. mun fylgja eftir reglum þess um starfsframa flutningsskyldra ritara og jafnframt verður því fylgt eftir að konur geti gegnt æðri stjórnunarstöðum. Það er hins vegar staðreynd að fáar konur gegna störfum í utanríkisþjónustunni og konur eru í miklum minni hluta um þær fáu stöður sem losna þá sjaldan, enda starfar tiltölulega fátt fólk í íslenskri utanríkisþjónustu.