Fjarnám

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:45:41 (3212)

1996-02-21 13:45:41# 120. lþ. 94.2 fundur 291. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrri spurningin er um það hvaða skólar á háskólastigi bjóða nú upp á fjarnám. Þessari spurningu er fljótsvarað því fjarnám fer nú einungis fram við einn skóla sem er formlega skilgreindur á háskólastigi en það er Kennaraháskóli Íslands. Er fjarnám orðinn snar þáttur í starfi Kennaraháskólans og nemendum á mörgum námsbrautum býðst nú að nýta sér þá möguleika sem fjarnámið felur í sér. Með því að nýta tölvufjarskipti við námið opnast nýjar leiðir og fjarnámið er einnig mikilvægur liður í því að styrkja kennaranám utan höfuðborgarsvæðisins.

Að því er aðra skóla varðar á háskólastigi þá er ekki boðið upp á formlegt nám með þessum hætti. Við Fósturskóla Íslands er einnig boðið upp á fjarnám en sá skóli er ekki formlega skilgreindur á háskólastigi þótt í reynd séu inntökuskilyrði í hann stúdentspróf eða sambærileg menntun og skólinn eigi aðild að svokallaðri samstarfsnefnd háskólastigsins. Mér er hins vegar kunnugt um það að á háskólastiginu eru skólarnir nú að ræða saman, þeir þrír skólar sem skilgreindir eru formlega sem háskólar, þ.e. Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Þeir eru einmitt í viðræðum sín á milli um nýtingu tölvutækninnar í þjónustu náms og ég á von á því að þessir skólar muni auka þjónustu sína á þessu sviði. Ég dreg ekki í efa að það muni nýtast mörgum og tel að það sé rétt og skynsamlegt skref.

Allir skólarnir eru tengdir inn á netið. Raunar má segja um það efni að 90% grunnskóla landsins eru tengdir þannig að þeir geta nýtt sér fjarnám eða verið í því sambandi sem aðgangur að Internetinu veitir. Sama er að segja um framhaldsskólana þannig að tæknilegar forsendur eru fyrir hendi.

Að því er varðar síðari spurninguna, hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir eflingu fjarnáms í skólum á háskólastigi, þá er það almennt að segja að hvort sem um háskólastigið er að ræða eða önnur skólastig þá tel ég nauðsynlegt að efla fjarkennslu og fjarnám. Í vetur hefur t.d. verið fyrir tilstuðlan menntmrn. gerð tilraun um fjarnám í 10. bekk grunnskólans. Það er Gagnfræðaskólinn á Akureyri sem veitir þá þjónustu nemanda á Bakkafirði þannig að það er verið að fikra sig áfram í þjónustu á þessu sviði á öllum skólastigunum.

Í næstu viku er væntanleg frá menntmrn. skýrsla eða stefnumótun um nýtingu tölvutækninnar og upplýsingatækninnar á sviði menntamála, menningarmála og starfssviði ráðuneytisins og þar verður kynnt nánar hvernig ráðuneytið telur að standa beri að nýtingu þessarar tækni á starfssviði sínu.

Kostir fjarkennslu eru augljósir, ekki síst í stóru landi eins og okkar þar sem menn geta yfirunnið fjarlægðir með tækninni og setið við sama borð eins og hv. fyrirspyrjandi vék að þótt þeir séu ekki allir á sama stað. Ég tel að markmið með fjarkennslu eigi að vera m.a. að draga úr aðstöðumun sem byggist á búsetu og það sé auðvelt að gera það með þessari tækni.

Einnig er nauðsynlegt að menntastofnanir hafi aðgang að gagna- og upplýsingabanka sem sérstaklega verði settur upp með þarfir fjarkennslu og rafrænna samskipta í huga. Þá þarf að styrkja og þróa innviði hins rafræna samskiptakerfis í landinu þannig að ætíð sé kostur á því besta sem tækni á þessu sviði býður. Efla verður og treysta samband Íslands við umheiminn eftir rafrænum leiðum svo að einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geti notið fyllsta öryggis í notkun rafrænnar samskiptatækni.

Þróunin hér á landi hefur verið sú að það er ekki síst innan skólakerfisins og fyrir frumkvæði þeirra sem stóðu að fyrirtækinu Ísmennt á sínum tíma sem komið hefur verið á mjög góðu samskiptakerfi á milli menntastofnana. Ég tel að á því kerfi eigi að byggja í framtíðinni og nú þurfi að þróa það og veita aukna þjónustu á þessu kerfi á öllum skólastigum, ekki aðeins á háskólastiginu heldur á öllum skólastigum, og nýta þessa tækni sem best til þess að auka menntun og fjölbreytni menntunar í landinu.