Fjarnám

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:52:52 (3215)

1996-02-21 13:52:52# 120. lþ. 94.2 fundur 291. mál: #A fjarnám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þessi fyrirspurn hefur fengið og þau greinargóðu svör sem hæstv. menntmrh. veitti við fyrirspurnum mínum. Það fer ekkert á milli mála að hæstv. menntmrh. hefur tekið þessi mál mjög föstum tökum. Eins og fram kom í máli hans er væntanleg þegar í næstu viku skýrsla um hvernig hægt sé að nota tölvutæknina við nám og menningu og listir á öllum stigum. Það held ég að sé mjög þýðingarmikill grundvöllur fyrir frekara mótunarstarf og frekari vinnu á þessu sviði.

Ég legg mikla áherslu á það að hægt sé að hrinda í framkvæmd auknu fjarnámi sem fyrst. Ég held að við eigum einmitt núna að nota okkur það lag sem er að skapast með nýrri tækni til þess að hefjast handa um aukið fjarnám og það fyrr en síðar. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji eitthvað í veginum fyrir því að þannig aukið fjarnám geti átt sér stað í nokkrum skólum, t.d. á framhalds- og háskólastigi, strax á næsta skólaári. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að fólk fái vitneskju um því að mjög margir eru einmitt um þessar mundir að huga að því hvaða nám þeir eigi að stunda á næsta ári eða hvort það eigi hugsanlega að flytjast búferlum til þess að geta sótt það nám sem það hefur áhuga á.

Ég fagna, virðulegi forseti, þeim aukna áhuga sem hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra á áherslunni á fjarnám um leið og ég verð að segja að það er auðvitað ekki vansalaust hversu mikill sofandaháttur hefur verið ríkjandi í þessu máli. Ég get ekki fallist á að það sé hægt að afsaka sig endalaust með einhverju tali um peningaleysi. Ég held að þetta sé ekki síður, því miður, sofandaháttur stjórnenda skólanna sem hér eiga hlut að máli. Ég held að menn verði að taka sig saman í andlitinu og gera bragarbót á þessu og það er fagnaðarefni sem hæstv. ráðherra upplýsti um áðan að stjórnendur Kennaraháskólans, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands eru núna að fara að tala saman um þessi mál því það er ekki afsakanlegt fyrir stærstu og virðulegustu mennta- og vísindastofnun landsins, Háskóla Íslands, að ekki skuli vera boðið upp á fjarnám af einu eða öðru tagi. Það er ekki afsakanlegt. Og því miður lýsir þetta ákveðnu viðhorfi að mínu mati.