Skattlagning happdrættisreksturs

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:01:27 (3218)

1996-02-21 14:01:27# 120. lþ. 94.3 fundur 299. mál: #A skattlagning happdrættisreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Varðandi 1. lið fyrirspurnarinnar skal sagt að í reynd er það svo að þeir aðilar sem eru með happdrætti hér á landi, falla flestir undir ákvæði 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem kveður á um að þeir aðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla skuli undanþegnir skattskyldu. Rekstur happdrætta sem ekki fullnægði þessum skilyrðum 4. gr. eða ekki væri undanþeginn samkvæmt sérlögum væri að fullu skattskyldur eins og hver annar rekstur þannig að aðalreglan er skattskylda en undantekningin er skattleysi og þá þarf skilyrðið ,,til almenningsheilla`` að vera fyrir hendi.

Í öðru lagi er spurt um það hvernig staðið sé að slíkri skattlagningu á Norðurlöndum. Þar munu gilda sömu grundvallarreglur og hér, þ.e. reksturinn er skattskyldur nema hann falli undir almenn undanþáguákvæði skattalaga eða sé undanþeginn samkvæmt sérlögum. Því miður get ég ekki svarað þessu betur, því að þá yrði að kanna nákvæmlega hve oft undanþáguheimildunum er beitt í viðkomandi löndum og það hefur ekki gefist tími til þess að athuga það í megindráttum. Ég veit þó að það er til ákveðin þekking á þessum málum hér á landi. Til dæmis veit ég að Íslendingur hefur kynnt sér þessi mál rækilega í Danmörku og skrifað um það ritgerð og ég hygg að hægt sé að fá hana og kynna sér efni hennar og held að það sé afar fróðlegt sem þar kemur fram. Varðandi þá ritgerð þá má geta þess án þess að það tilheyri svari við þessari fyrirspurn að það hlýtur að reka að því að íslensk stjórnvöld verði að gera það upp við sig hvort þau vilja, m.a. til þess að örva ferðamannaiðnaðinn, að koma upp einhvers konar fjárhættuspilum, spilavítum eins og það heitir á vondu máli, en það er ekki til umræðu í þessari fyrirspurn.

Í þriðja lagi var spurt um sambærileg skattaákvæði í svokölluðu víkingalottói, en samkvæmt íslenskum lögum er rekstur lottósins og víkingalottósins ekki skattskyldur með vísun til 4. gr. tekjuskattslaganna þar sem hagnaðinum er öllum varið til almenningsheilla.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1986, um talnagetraunir, eru vinningar undanþegnir skattskyldu hér á landi. Reglurnar eru ekki alveg þær sömu og annars staðar á Norðurlöndum. Fyrir það fyrsta er ríkissjóður eða fyrirtæki sem ríkið á að öllu leyti eða að hluta rekstraraðili víkingalottósins annars staðar á Norðurlöndum. Hér á landi er rekstraraðilinn Íslensk getspá sem er í eigu Öryrkjabandalagsins og íþróttahreyfingarinnar. Mér skilst að annars staðar á Norðurlöndum hátti þannig til að það séu engir skattar greiddir af sölu eða vinningum í Noregi, en í Svíþjóð er 35% skattur af hagnaði en enginn skattur af vinningum. Í Danmörku er 15% skattur af öllum vinningum en ekki sérstakur skattur til ríkisins af rekstrinum. Í Finnlandi eru vinningar skattfrjálsir en 5% skattur af heildarsölu til ríkisins. Tekið skal fram að alls staðar á Norðurlöndum er tekjum af víkingalottói varið til mannúðar-, æskulýðs- og líknarmála. Það má því segja að það sé að nokkru leyti rétt að einhver hluti af þeim íslenskum fjármunum sem renna til kaupa á víkingalottói renni til ríkja á Norðurlöndum, en hins vegar það sem aðrir kaupa rennur ekki til ríkisins hér.

Síðan er í fjórða lagi spurt hvort ráðherra hafi í hyggju að beita sér fyrir breytingu á skattareglum um starfsemi happdrættis og ef svo er, í hvaða veru. Það er nú svo að víðast hvar eru það ríkin sem eiga lottó. Það hefur ekki tíðkast hér, heldur þvert á móti hefur ríkið ekki stundað happdrættisstarfsemi, ef frá er skilið Happdrætti Háskólans, en háskólinn er auðvitað ríkisstofnun.

Ég ræddi á sínum tíma við aðilana sem standa að Viking lotto, víkingalottóinu, og þeim er ljóst að það getur brugðið til þess hvenær sem er að skattur verði tekinn af víkingalottói. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er eðlilegt að þetta mál sé rætt á milli ráðuneyta en ég kýs að svara ekki að svo stöddu hvort mér finnst eðlilegt að færa þetta yfir í fjmrn. en eins og hv. fyrirspyrjandi veit þá finnst mér að talsverð völd eigi að vera í því ráðuneyti.