Fíkniefnasmygl

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:10:53 (3221)

1996-02-21 14:10:53# 120. lþ. 94.4 fundur 316. mál: #A fíkniefnasmygl# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Daglega vakna menn upp við fréttir af fíkniefnasmygli og fíkniefnavanda. Lögreglan hreinsar út hvert fíkniefnabælið á fætur öðru og tollgæslan gerir upptækt mikið magn af fíkniefnum. Fjöldi ungs fólks hefur orðið fórnarlömb þessa vágests. Sögusagnir herma að það sé jafnauðvelt fyrir unglingana að útvega sér tískulyfið E-pilluna og panta sér pitsu, en þess eru dæmi hér á landi að ungmenni hafi fyrirfarið sér eftir notkun þessa lyfs. Allt of lengi hefur þjóðin leitt þetta vandamál hjá sér og því er það fagnaðarefni að hún skuli nú hafa vaknað til vitundar og baráttu gegn þessum vanda. Einkum ber þó að fagna því að unglingarnir sjálfir hafa þjappað sér saman í baráttunni, en sú barátta er líklegust til að skila árangri.

Löggæslustéttirnar hafa lýst miklum áhyggjum yfir ástandinu og vilja til að taka á vandanum, en niðurskurður ríkisvaldsins hefur bitnað á þessum stéttum.

Um síðustu mánaðamót birtust fréttir í DV með viðtölum við tollverði þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum af niðurskurði á fjárframlögum til tollgæslunnar sem hefur það í för með sér að erfiðara er að koma í veg fyrir smygl á fíkniefnum til landsins. Vegna þessara viðtala eru tollverðirnir kallaðir inn á teppið og þeim sagt að samkvæmt fyrirmælum fjmrh. sé í ráði að veita þeim skriflega áminningu.

Í ljósi þeirrar umræðu sem nú fer fram í þjóðfélaginu og vegna þeirrar hættu sem þjóðfélaginu stafar af eiturlyfjavandanum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hér sé virkilega rétt eftir honum haft og hvort það hafi virkilega verið ætlun hans að áminna tollverði fyrir að vekja athygli á því að efla þurfi tollgæsluna. Hver voru afskipti hæstv. fjmrh. af þessu máli? Ef hann hefur krafist þess að tollvörðunum yrði veitt áminning, þá er það að mínu mati mjög alvarlegt mál.

Nú skal tekið fram að það stenst ekki lög að veita þessa áminningu. Það hefur verið kannað mjög rækilega af lögfræðingum og vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í greinargerð Arnmundar Backmans hæstaréttarlögmanns sem hefur kannað þetta mál, en hann segir:

,,Umbjóðendur mínir hafa hvorki brotið þagnarskyldu samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins samkvæmt. Þvert á móti hafa þeir lagt sitt af mörkum til umræðunnar um eiturlyfjavandann og ber að þakka þeim fyrir það.`` Spurningin snýst því ekki einvörðungu um réttindi tollvarða heldur ekki síður um þann mikla vanda sem við er að etja og hvernig fjmrh. hyggst efla tollgæsluna þannig að hún geti sinnt sínu hlutverki. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna að lokum aftur í greinargerð Arnmundar Backmans. Þar segir:

,,Sú þegnskylda hvílir á öllum hugsandi mönnum þessa lands að leggja sitt af mörkum gegn þessari vá, benda á það sem betur mætti fara og fjárskortur er alveg augljóslega eitt af þeim atriðum.``

Í framhaldinu af því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir því að tollgæslan verði efld þannig að koma megi í veg fyrir að fleiri ungmenni verði fórnarlömb eiturlyfja.