Fíkniefnasmygl

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:22:41 (3225)

1996-02-21 14:22:41# 120. lþ. 94.4 fundur 316. mál: #A fíkniefnasmygl# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það sem þetta mál snýst um er ekki það að menn hafi verið áminntir. Það gerist skriflega, eins og ég hélt að formaður BSRB vissi, ef það á að hafa þýðingu. Það kom fram mjög greinilega í svari mínu að tollstjóranum í Reykjavík var falið að kynna starfsmönnum þær reglur sem gilda um tollverði og hvenær tollverðir eiga að segja frá því sem gerist á þeirra verksviði. (ÖJ: Þeir fóru samkvæmt þeim reglum og lögum.) Ef ég má segja frá því hvað gerðist. Ég hélt að fyrirspyrjandi hefði verið að spyrjast fyrir um það hvað hefði gerst og ég er bara að skýra frá því. Þannig liggur máli fyrir. Það hefur enginn verið áminntur í málinu. Það kom hins vegar fyllilega til greina, ég skal viðurkenna það. En eftir að hafa skoðað málið fannst mér það skipta mestu máli að starfsmönnum tollsins væri ljóst hvað til þeirra friðar heyrir og ég tel að málinu sé lokið. Það gilda auðvitað sérstakar reglur um tollverði og það gilda sérstakar reglur um lögregluþjóna, eins og gefur að skilja, þannig að þetta þarf að koma fram.

Hv. fyrirspyrjandi spurði hvaða ummæli þetta væru. Mér finnst t.d. ekki viðeigandi þegar haft er eftir tollverði, og það kemur fram á forsíðu DV, þar sem birtist mynd af honum í einkennisbúningi með merki tollstjóraembættisins, og því lýst yfir að það séu ótakmarkaðir möguleikar á eiturlyfjasmygli. Þetta eru ekki góð skilaboð. Ef menn þurfa að kvarta undan því (Gripið fram í: En ef það er rétt?) að það vanti fjármuni þá snúa menn sér til yfirmannanna og ef blaðamenn þurfa að tala við tollinn þá eiga þeir að snúa sér til yfirmannanna og ef það er verið að kvarta um fjármuni þá á það að fara réttar boðleiðir. Þannig þarf að fara að í þessum málum.

Það getur vel verið að ýmsum finnist það vera snjallt og sniðugt í sinni kjarabaráttu til þess að fá aukna vinnu fyrir sig að fara með þessi viðkvæmu mál í blöð með þessum hætti. Ég bið menn um að íhuga það hvort þeir séu að gera æsku landsins gagn með því að gefa svona yfirlýsingar eða hvort að það sé ekki betra fyrir alla aðila að menn ræði þessi mál inn á við, inni á sinni stofnun áður en birtar eru fréttir á borð við þetta. (Forseti hringir.)

Ég skal hins vegar að lokum taka það fram að ég á von á því að það séu verk blaðamannsins að sjálfsögðu í þessu tilviki að slá fréttinni upp með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Þetta vona ég, virðulegi forseti, að allir skilji og að öll kurl hafi komið til grafar varðandi þessa fyrirspurn og með svarinu og þakka fyrir það tækifæri sem mér bauðst hér til að skýra frá sannleikanum í málinu.