Vaxtamál

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:20:51 (3241)

1996-02-26 15:20:51# 120. lþ. 95.1 fundur 200#B vaxtamál# (óundirbúin fsp.), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:20]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ræða hæstv. fjmrh. var þannig að hann vék sér undan því að vinna sams konar afrek og hann gerði (SJS: Hann fær þá ekki margar stjörnur núna.) fyrir 2--3 árum. Hann telur sig ekki hafa mikil völd í þessu máli og að það beri að beina fyrirspurninni til annarra. (Gripið fram í: Heilbrigðisráðherra.) Það kann vel að vera að hæstv. forsrh. hafi einmitt ráðið meiru í þessu máli 1993 en hæstv. fjmrh. Eigi að síður urðu þessir atburðir og þessi árangur náðist. Þó að hæstv. fjmrh. taki ekki undir þessa leið núna skulum við gera okkur grein fyrir því að íslenskur fjármagnsmarkaður er mjög sérstakur. Það eru tveir, þrír karlar með hatt sem ráða honum og (Gripið fram í: Steingrímur Hermannsson og?) halda uppi vöxtum. Nei, það er ekki Steingrímur Hermannsson. (Gripið fram í.) Það eru mennirnir sem stjórna stærstu lífeyrissjóðunum. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvað lífeyrissjóðirnir eru orðnir sterkir á fjármagnsmarkaðinum. Bankakerfið og frjáls sparnaður ræður nú yfir 250 milljörðum kr. en lífeyrissjóðirnir yfir 314 millörðum kr. Ég vil því, hæstv. forseti, ljúka mínu máli með því að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að íhuga það sem gerðist 1993. Ég held að það séu mun betri aðstæður nú en þá að fara þá leið.