Símenntun og fullorðinsfræðsla

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:25:23 (3244)

1996-02-26 15:25:23# 120. lþ. 95.1 fundur 201#B símenntun og fullorðinsfræðsla# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:25]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Evrópusambandið helgar árið 1996 símenntun. Hér á landi hefur verið skipaður samráðshópur um ár símenntunar. Sl. laugardag, þann 24. febrúar, var haldinn dagur símenntunar hér á landi með þátttöku fjölmargra stofnana. Eitt af markmiðum þessa átaks er að auka vitund almennings og stjórnenda fyrirtækja og skóla um að menntun sé lífsstarf sem tilheyrir ekki einungis fyrsta hluta ævinnar. Vafalaust eru flestir sammála um mikilvægi þessa markmiðs nú á tímum örra breytinga á vinnumarkaði og að því er virðist viðvarandi atvinnuleysis. Því er mikilvægt að sí- og endurmenntun standi öllum til boða óháð grunnmenntun eða því hvort viðkomandi hefur eða hefur ekki lokið skyldunámi, framhaldsskólanámi eða háskólanámi.

Í frv. til laga um framhaldsskóla sem nú er til meðferðar í hv. menntmn. þingsins er fjallað um fullorðinsfræðslu og endurmenntun í 33.--35. gr. Samkvæmt þeim er framhaldsskólum heimilt að starfrækja öldungadeildir og starfrækja endurmenntunarnámskeið í samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, sveitarfélög eða aðra hagsmunahópa. Kostnaður við slík námskeið á að greiðast með þátttökugjöldum eða af þeim aðilum sem standa að námskeiðum með skólanum. Þá er framhaldsskóla heimilt að stofna fullorðinsfræðslumiðstöð í samvinnu við áðurnefnda aðila sem geri með sér samning um starfsemina.

Það vekur sérstaklega athygli mína að gert er ráð fyrir því við gildistöku nýrra laga um framhaldsskólann að núverandi lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992, falli úr gildi. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga á nám til fullorðinsfræðslu að ná til grunn-, framhalds- og háskólastigs og það er ljóst að ríkið tekur beinan þátt í kostnaði við fullorðinsfræðslu. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:

Á að tengja framhaldsskólann við alla fullorðinsfræðslu í landinu sem ekki heyrir undir önnur lög, líka þá sem ekki getur talist á framhaldsskólastigi? Er það ætlunin að ríkið hætti fjármögnun á fullorðinsfræðslu og sí- og endurmenntun fyrir utan tvo þriðju af kostnaði við öldungadeildir? Og hvað með stofnanir sem fyrir eru eins og MFA og Námsflokka Reykjavíkur? Samkvæmt hvaða lögum eiga þær að starfa? Geta þær starfað sjálfstætt áfram eða verða þær að tengjast framhaldsskólum? Að síðustu: Fyrirhugar menntmrh. e.t.v. að setja ný lög um fullorðinsfræðslu og endurmenntun?