Símenntun og fullorðinsfræðsla

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:28:09 (3245)

1996-02-26 15:28:09# 120. lþ. 95.1 fundur 201#B símenntun og fullorðinsfræðsla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Einmitt þessi mál voru til umræðu á ráðstefnu sl. laugardag þar sem fjallað var um símenntun og það átak sem nú er gert hér á landi til að efla hana með öllum tiltækum ráðum. Þetta mál var einnig til umræðu þegar framhaldsskólafrv. var lagt fram í haust. Þá var sérstaklega spurt um sama atriði og hv. þm. gerði og snertir MFA og starfsmenntunarnám sem er á vegum félmrn. Þær hugmyndir sem koma fram í 35. gr. framhaldsskólafrv. ef ég man númerið rétt, lúta ekki að því sem lýtur að starfsmenntun og snerta ekki MFA. Hins vegar er það staðreynd að ýmsir framhaldsskólar eru núna í samstarfi við MFA. Framhaldsskólinn á Norðurl. v. er t.d. í samstarfi við MFA og aðra um fullorðinsfræðslu eða farskóla sem lofar mjög góðu um það hvernig framhaldsskólar geta unnið með ólíkum aðilum. Fullorðinsfræðslulögin frá 1992 komust aldrei til framkvæmda eins og kemur fram í greinargerð með framhaldsskólafrv. Það var ekki hægt að hrinda þeim í framkvæmd. Niðurstaðan varð sú, þegar kom að því að fara yfir málið í menntmrn. á sl. sumri, að fara þá leið sem mörkuð er í þessu frv., fella þessi lög úr gildi og fela framhaldsskólunum aukið hlutverk á þessu sviði. Ég tel að allir þeir sem að þessu máli koma, a.m.k. þeir sem komu að þessu máli á ráðstefnu á laugardaginn var, hafi verið þessu hlynntir. Að vísu hafði fulltrúi MFA efasemdir, m.a. af því að hann vill árétta stöðu sinna samtaka. En ég tel að ekki sé vegið að þeim með nokkru móti. Þau starfa á sínum forsendum en framhaldsskólarnir fá þarna nýtt hlutverk og verða virkari aðilar í samfélaginu. Ég tel að þetta sé skynsamlegt skref og til þess fallið að efla fullorðinsfræðsluna.