Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:45:14 (3257)

1996-02-26 15:45:14# 120. lþ. 95.5 fundur 296. mál: #A stjórn fiskveiða# (umframveiði síldar og hörpudisks) frv. 16/1996, Frsm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:45]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sjútvn. á þskj. 578 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Sjútvn. hefur farið yfir frv. og fengið til sín fulltrúa sjútvrn. og Jakob Jakobsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með ákveðinni breytingu sem ég mun gera grein fyrir.

Frv. felur í sér lagfæringu á 4. mgr. 10. gr. laganna sem lýtur að því að í heimildum til að veiða og geyma veiðiheimildir gagnvart kvótabundnum tegundum hefur ekki verið fullt samræmi. Við síðustu breytingu á lögunum féll út heimild sem varðaði síld og við nánari rannsókn hefur ekki fundist að neinn hafi af efnislegum ástæðum ætlað sér að leggja það til. Það verður því að líta svo á þar til annað verður sannað að um slys hafi verið að ræða, það hafi sem sagt ekki verið ásetningur að breyta efnisreglunni gagnvart þessum stofni. Því er lagt til að þetta verði fært til fyrra horfs, geymslu- og umframveiðiheimildir á síld verði með sama hætti og áður var og sambærilegar við aðrar tegundir í þessum flokki.

Enn fremur hefur nefndin skoðað þessi mál hvað varðar innfjarðarrækju og hörpudisk. Þar voru heimildir ekki fyrir hendi með sama hætti og í bolfiski, úthafsrækju og uppsjávartegundum. Niðurstaða nefndarinnar er að nauðsynlegt sé að hafa nokkurt svigrúm einnig gagnvart þessum tegundum þótt menn séu sammála um að varðandi t.d. geymsluheimildirnar þurfi að gæta hófs í því að heimila geymslurétt á veiðiheimildum ef um er að ræða mjög staðbundna eða skammlífa stofna þar sem sveiflur í úthlutuðu veiðimagni geta verið mjög miklar. Þetta er talið eiga sérstaklega við um innfjarðarrækju. Af því leiðir að í tillögu sjútvn. í nál. á þskj. 578 er lagt til að geymsluheimildir verði 10% af aflamarki hörpudisks og aðeins 5% af aflamarki innfjarðarrækju. Verður almenna reglan sú að heimilt er að geyma 20% af aflamarki af bolfiski, uppsjávartegundum og úthafsrækju, 10% af aflamarki hörpudisks og 5% af aflamarki innfjarðarrækju. Umframveiðiheimildirnar eru hins vegar 5% í botnfisktegundum, síld og úthafsrækju og 3% í innfjarðarrækju og hörpudiski.

Með þessu móti er vonandi búið að skapa svigrúm í öllum tilvikum sem er mönnum til hægðarauka. Menn þurfa þá ekki að vera bundnir af því eða undir þrýstingi um að ná nákvæmlega úthlutuðu aflamarki á hverju ári. Það þarf ekki að eltast við síðustu kílóin, ef svo má að orði komast. Af sama leiðir að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur þótt þeir lendi lítillega fram yfir úthlutað aflamark, svo sem eins og nemur afrakstri úr hálfri veiðiferð. Það er sem sagt visst svigrúm í báðar áttir. Af þeim ástæðum sem ég gerði grein fyrir er talið nauðsynlegt að fara mjög vægt í sakirnar hvað varðar tegund eins og innfjarðarrækjuna og það er gert í þessum tillögum.

Niðurstaða nefndarinnar var að hrófla ekki að svo stöddu við þessum ákvæðum hvað varðar aðrar tegundir þótt ljóst sé að það geti verið þörf á að endurskoða ýmislegt. Má þar nefna sérstaklega humarinn en því miður er það svo að þar brást vertíð að verulegu leyti á síðasta ári og af því leiðir einnig að menn nýta í flestum tilvikum til fulls sinn geymslurétt. Aflamarkið er síðan skorið verulega niður og þá kemur upp ósamræmi sem ástæða er til að hafa áhyggjur af þegar geymdi rétturinn nemur mörg hundruð tonnum og veiðirétturinn er hins vegar skorinn verulega niður á næsta ári. Þá getur komið til ósamræmi sem veldur verulegum vandkvæðum. Það dregur þá aftur athyglina að því hvort menn hafi í raun gengið of langt hvað þessa tegund varðar með því að hafa reglur þannig að heimilt væri að geyma allt að fimmtungi veiðiheimildanna á hverju ári.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þetta litla frv. Sjútvn. leggur til að það verði samþykkt með þessari breytingu sem ég hef gert grein fyrir og er á þskj. 578.