Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:27:51 (3272)

1996-02-27 14:27:51# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. misskildi algerlega það sem ég sagði. Hins vegar var tími minn úti þannig að ég gat ekki rætt um þann þáttinn sem lýtur að hlutafélagsforminu. Það vakti athygli mína að hv. þm. endurtók það sem hann sagði fyrr. Ég skildi hann a.m.k. svo að hann sé sammála því að Póstur og sími sé áfram opinber stofnun.

Hv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni að hlutafélög væru til þess að dreifa eignaraðildinni. Ég hygg að hv. þm. sé það vel að sér, bæði í hlutafjárlöggjöfinni og í framkvæmd hennar og þekki til það margra fjölskylduhlutafélaga og nýrra breytinga, að hann viti að menn stofna ekki hlutafélag eingöngu til þess að dreifa eignaraðild þótt samþingmaður okkar, Eyjólfur Konráð Jónsson, hafi hins vegar haft sérstakan áhuga á því máli og orðið með vissum hætti brautryðjandi að almenningshlutafélögum hér á landi auðvitað að Eimskipafélaginu slepptu, sem var ekkert annað en almenningshlutafélag. Með breytingunni í hlutafélag erum við að gera félagið óháð og sjálfstætt þannig að eigandinn ber ekki ábyrgð á skuldbindingum hlutafélagsins, en það er sú krafa sem gerð er í sambandi við hin nýju samkeppnislög og þær kröfur sem þar eru uppi.

Það er hins vegar mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra ef hann heldur að það sé eitthvert einsdæmi að ráðherra, sem falin er umsjón með tilteknum fyrirtækjum, skipi ekki þá stjórnarmenn sem falla í hlut ríkisins. Ég hygg að hann sem fjmrh. á sínum tíma þekki vel þær venjur í þeim efnum og viti líka að í ríkisstjórnum er samvinna um það hvernig menn standa að slíkum hlutum. Og ef ég minni á hvernig skipan var í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins, er ekki hægt að halda því fram að ég hafi verið með einhverja pólitíska kommissara þar, a.m.k. er varla hægt að segja að Geir Gunnarsson, fyrrv. þm. Alþb., hafi verið minn pólitíski kommissar.