Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:32:21 (3274)

1996-02-27 14:32:21# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:32]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var á margan hátt athyglisverð ræða hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. Sérstaklega vangaveltur hans um hugsanlegt rekstrarform stofnunarinnar Pósts og síma. Þess vegna finnst mér óhjákvæmilegt að það verði skýrt í þessari umræðu hvort það sé skoðun hv. þm. að núverandi rekstrarform Pósts og síma, þ.e. að vera B-hluta stofnun eins og við þekkjum hana, sé hlutur sem við hljótum að breyta. Er það skoðun hv. þm. að núverandi rekstrarform Pósts og síma gangi ekki upp við þá rekstraraðstöðu sem fjarskiptafyrirtæki eins og Pósti og síma er búin? Það er mjög þýðingarmikið að þetta liggi hér fyrir þar sem ég gat ekki skilið ræðu hv. þm. öðruvísi en svo að það væri hans skoðun að við þyrftum að feta okkur út úr því rekstrarformi sem nú væri á Pósti og síma og inn í eitthvað annað rekstrarform þó hv. þm. hefði þá skoðun að hlutafélagaformið væri ekki það sem passaði alls kostar fyrir þetta fyrirtæki. Svo vil ég aðeins til upplýsingar, því hv. þm. taldi að ekkert hefði gerst í átt til jöfnunar í símkostnaði á undanförnum tveimur árum, minna á að fyrir tæpu ári síðan var stigið skref í þá átt að stækka gjaldskrársvæði Pósts og síma. Það þýddi að mati stofnunarinnar u.þ.b. 100--200 millj. kr. lækkun á töxtum almennings og þá sérstaklega þess fólks sem þarf að nota símann úti á landi, landsbyggðarfólksins sjálfs.