Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:40:04 (3278)

1996-02-27 14:40:04# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, MS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:40]

Magnús Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Í frv. er gert ráð fyrir því að rekstrarformi stofnunarinnar verði breytt m.a. með það að markmiði að gera fyrirtækið sjálfstæðan rekstraraðila til þess að auka samkeppnishæfni þeirra þjónustugreina sem það annast, auka svigrúm, skapa meiri sveigjanleika og gera stjórnun stofnunarinnar skilvirkari en mögulegt er með því rekstrarformi sem nú er, þar sem um er að ræða ríkisstofnun. Ég er þeirrar skoðunar að núverandi rekstrarform Póst- og símamálastofnunar sé ekki viðunandi ef litið er til stærðar og umfangs hennar, til þeirrar starfsemi sem stofnunin rekur og út frá því umhverfi sem Póstur og sími starfar í þar sem mjög mikil og ör þróun á sér stað á nánast öllum sviðum. Í því sambandi má m.a. nefna þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa og munu verða á allra næstu árum varðandi fjarskiptamál í heiminum og afnám einkaréttar ríkisfyrirtækja til rekstrar símaþjónustu á alþjóða vettvangi.

Ég tel t.d. að það sé óeðlilegt að fyrirtæki eða stofnun sem hefur jafnumsvifamikinn rekstur og jafnmikla veltu og Póstur og sími hafi ekki sérstaka stjórn heldur sé yfirmaður stofnunarinnar beint undir ráðherra settur og að stofnunin skuli starfa samkvæmt þeim ramma sem fjárlög ríkisins setja. Þetta tel ég óeðlilegt með fullri virðingu fyrir þeim aðilum sem um er að ræða.

Póstur og sími er vel rekið fyrirtæki. Það er viðurkennd staðreynd en það breytir ekki afstöðu minni. Það væri hreinlega til skaða fyrir fyrirtækið ef það verður rekið áfram með óbreyttu rekstrarfomi, sérstaklega ef litið er til þróunar, aukinnar samkeppni og hinna miklu breytinga á rekstrarumhverfinu sem ég hef áður nefnt.

Varðandi formbreytingu Pósts og síma þá eru til þess ýmsar leiðir og margir möguleikar eru til staðar eins og fjölmörg dæmi sýna t.d. frá nágrannalöndum okkar þar sem á undanförnum árum hefur verið ráðist í að breyta rekstrarformi póst- og símastofnana. Þá má líka spyrja sig að því hvort það sé og eigi að vera lögmál að starfsemi póstsins og símans skuli rekin undir sama merki eða hvort ekki sé eðlilegt að reka póstinn sérstaklega og símann af öðrum rekstraraðila. Ég er þeirrar skoðunar að hér eigi að vera sitt hvort fyrirtækið. Fyrirliggjandi frv. gerir að vísu ráð fyrir því að starfsemin skuli vera með óbreyttu sniði frá því sem nú er, þ.e. póst- og símarekstur í sama fyrirtækinu, en jafnframt er gert ráð fyrir því að starfseminni verði skipt upp þegar fram í sækir. Ég tel að þetta eigi að gerast sem allra fyrst.

Hvað varðar leiðir til breytinga á rekstrarforminu gerir frv. ráð fyrir því að Póst- og símamálastofnun verði breytt í hlutafélag sem verður alfarið í eigu ríkisins. Ég tel mikilvægt að það sé tryggt að ríkið eigi fyrirtækið alfarið og í frv. er tekið á því þannig að gefið verður út eitt hlutabréf fyrir öllu hlutafé. Það verður í eigu ríkisins og ekki er heimilt að selja hlut í félaginu án samþykkis Alþingis. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á það í umræðum um málið að eignarhald ríkisins á fyrirtækinu verði tryggt eins vel og mögulegt er. Ég tel að eignarhald ríkisins verði tryggt eins og kostur er með þessum ákvæðum. Þeir sem gagnrýna þessa leið formbreytingar hafa bent á að breyting á stofnuninni í hlutafélag sé í rauninni ákvörðun um að fyrirtækið verði selt og þetta sé aðeins fyrsta skrefið til þess. Þá er því jafnan bætt við að fyrirtækið verði gefið sérstökum gæðingum, það verði selt á útsöluverði o.s.frv. Eðlilega verður að virða slíka gagnrýni eins og aðra, ekki síst vegna þess að sporin hræða vissulega í þessum efnum þar sem m.a. hefur verið bent á það að óeðlilega hafi verið staðið að sölu ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana á undanförnum árum og dæmi eru um að sum þeirra sem eru jafnvel mjög arðsöm hafi nánast verið gefin. Hins vegar tel ég að menn verði að varast að afgreiða hlutafélagsformið og breytingar á ríkisstofnunum í hlutafélög í eigu ríkisins sem alvondan hlut. Það má ekki mála skattann á vegginn í hvert sinn sem slík umræða á sér stað. Hlutafélagaformið hefur marga kosti. Í frv. er skýrt kveðið á um að það sé eingöngu Alþingi sem geti tekið ákvörðun um breytingar á eignarhaldi Pósts og síma hf. Vegna þessa ákvæðis getur Alþingi að sjálfsögðu einhvern tímann í framtíðinni tekið ákvörðun um að eignarhlutir í fyrirtækinu skuli seldir. En það liggur fyrir að ekki eru uppi áform um slíkt nú og má í því sambandi vitna til yfirlýsingar hæstv. samgrh. um þetta efni. Með þessu ákvæði er það því ekki í höndum ráðherra að ákveða sölu á eignarhlutum í fyrirtækinu en þannig hefur það gjarnan verið hvað varðar þá einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem ég nefndi hér áðan. Alþingi getur hvenær sem er tekið ákvörðun um breytingar eða sölu á hvaða ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki sem er þannig að ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að mála þessa hluti dökkum litum og afgreiða þessa formbreytingu á Pósti og síma sem vonda aðgerð.

[14:45]

Með þessu ákvæði er það ekki í höndum ráðherra að ákveða sölu á eignarhlutum í fyrirtækinu en þannig hefur það gjarnan verið hvað varðar þá einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem ég nefndi áðan. Alþingi getur í raun og veru hvenær sem er tekið ákvörðun um breytingar eða sölu á hvaða ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki sem er. Ég tel því ekki ástæðu til að mála þessa hluti dökkum litum og afgreiða formbreytingu á Pósti og síma sem einhverja vonda aðgerð.

Að frátöldu rekstrarforminu sjálfu er einn mikilvægasti þáttur þessa máls sá er snýr að starfsmannamálum Pósts og síma. Hér er um að ræða mjög viðkvæmt mál og það er grundvallaratriði að niðurstaða þess verði farsæl og viðunandi fyrir ríkið, fyrir Póst og síma og síðast en ekki síst fyrir starfsmenn stofnunarinnar. Í frv. er gert ráð fyrir því að starfsmenn haldi áunnum réttindum sínum og starfskjör þeirra verði ekki lakari eftir en áður. Starfsmenn Pósts og síma hafa nokkuð gagnrýnt það að frv. geri ekki ráð fyrir að hagsmunir þeirra verði tryggðir en af hálfu samgrn. hefur hinu gagnstæða verið haldið fram, þ.e. að tryggt verði samkvæmt frv. að starfsmenn haldi réttindum sínum og kjörum. Það er mjög mikilvægt að í umfjöllun um málið í þingnefnd verði þetta mál leitt til lykta þannig að niðurstaða þess verði skýr og í því sambandi verði haft fullt samráð við fulltrúa starfsmanna.

Virðulegi forseti. Í tengslum við lagafrv. sem við ræðum hér í dag og þau áform sem fram koma í því um breytingar á rekstrarmálum Póst- og símamálastofnunar er nauðsynlegt að ræða um sím- og póstkostnað landsmanna sem kemur fram í gjaldskrá stofnunarinnar. Það liggur fyrir að gjaldskrá síma á Íslandi er mun lægri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og þótt víðar væri leitað. Hins vegar liggur einnig fyrir að landinu er skipt í þrjú gjaldsvæði og þar með er símkostnaður mjög mismunandi í landsvæðum og eftir því hver notkun símans verður á hverjum stað. Að vísu var gerð jákvæð breyting til batnaðar á sl. ári eins og fram hefur komið þegar gjaldsvæðum var fækkað í þrjú þannig að mismunun símkostnaðar eftir landsvæðum var minnkuð verulega. Ég tel að stíga eigi enn frekari skref til jöfnunar símkostnaðar í landinu af þessu tilefni og ég skora á hæstv. samgrh. að ganga nú þegar í það að framkvæma þær aðgerðir sem þarf til þess að landsmenn allir sitji við sama borð hvað varðar gjaldskrá símans.

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er mjög stórt og mikið hagsmunamál fyrir þjóðina alla og því er mikilvægt að um það sé fjallað á málefnalegan hátt þar sem dregnir eru fram kostir og gallar þeirra áforma sem birtast í frv. og komist verði að farsælli niðurstöðu. Ég tel nauðsynlegt að gerð verði breyting á rekstrarformi Póst- og símamálastofnunar. Núverandi fyrirkomulag mun að mínu mati hamla mjög starfsemi, afkomu og þjónustu fyrirtækisins þegar frá líður, sérstaklega rekstur símaþjónustunnar og þær miklu breytingar á rekstrarumhverfi stofnunarinnar sem ég hef fjallað um. Breytt rekstrarform mun gefa aukna möguleika á enn frekari uppbyggingu og þróun fyrirtækisins og það mun koma landsmönnum öllum til góða í þjónustu og starfsemi Pósts og síma þegar til framtíðar er litið.